Yfirlýsing Ólafs Ragnars um að hann muni ákveða hvort hann skrifar undir Icesavelögin í lok janúar er nýmæli.
Aldrei áður hefur forseti gefið í skyn að hann muni hugsanlega ekki samþykkja lög áður en Alþingi hefur svo mikið sem byrjað umræður um þau.
Í framhaldi af þessu getur maður spurt hvort ekki sé einfaldast fyrir Jóhönnu og Steingrím að fara á Bessastaði, ræða við Ólaf og spyrja hvað þurfi til að hann gefi samþykki sitt – eða hvaða líkur séu á því?
Hvað sem mönnum finnst, þá er ljóst að þetta er ný staða í íslenskri stjórnskipan. Ólafur höndlar embætti sitt með allt öðrum hætti en forverar hans. Þingræðið sem hefur verið meginreglan í stjornskipuninni fer minnkandi – en að sama skapi aukast völd þjóðhöfðingjans. Þetta hefur gerst fyrir rammleik Ólafs Ragnars sjálfs – og það er greinilegt að hann telur sig eiga að halda áfram á þeirri braut.
Það verður forvitnilegt að sjá hvernig stjórnlagaþing tekur á þessu, því þarna eru mál sem vissulega þarf að skýra.