Þegar ég ungur drengur voru iðkaðar nokkrar bókmenntagreinar sem nú sést ekki mikið af.
Það var þjóðlegur fróðleikur, á hverju ári kom út fjöldi bóka sem innihélt svonefnda þjóðlegan fróðleik. Ýmsir mætir höfundar lögðu þetta fyrir sig, svo sem Tómas Guðmundsson, Sverrir Kristjánsson, Hannes Pétursson, en ókrýndur konungur þessarar bókmenntagreinar var um langt árabil Jón Helgason, sem einnig var ritstjóri Tímans.
Á hverju ári kom líka út fjöldi þýddra spennusagna eftir Alistair McLean, Desmond Bagley, Hammond Innes og Sven Hassel. Mikið af þessum bókum gerðust í stríðinum – það var í raun ekki svo langt frá stríðslokum – og svo var heil bókmenntagrein bækur sem fjölluðu um afrek Norðmanna í stríðinu. Þær voru þýddar í stríðum straumum. Íslendingar fengu að vita allt um baráttu norsku andspyrnuhreyfinguna, þunga vatnið og verksmiðjuna í Rjukan.
Svo var það vinsælasta bókmenntagreinin en það voru bækur um dulræn efni. Bækur sem fjölluðu um þennan málaflokk skiptu tugum á hverju ári, allt frá bókum um Hafstein miðil til bóka Erichs Von Däniken um guðina sem komu utan úr geimnum.
En þá var eins og hendi væri veifað – dulrænu bækurnar hurfu af markaðnum.
Eftirspurnin virðist samt vera ennþá fyrir hendi.
Óvæntur smellur í jólabókaflóðinu er bókin Sumarlandið eftir Guðmund Karlsson. Þar eru birt „viðtöl“ við fjölda framliðinna Íslendinga.
Þessi bók selst grimmt, og fjöldi fólks flettir henni í bókabúðum.
Ég leit sjálfur í hana um daginn. Sá meðal annars „viðtal“ við Séra Bjarna Jónsson dómkirkjuprest.
Bjarni var andsnúinn spírítismanum meðan hann lifði. En í bókinni dregur hann það allt til baka og segir það hafa verið misskilning.