Um jólin varð ógurlegt stjörnuflóð.
Fjölmiðlar kepptust við að gefa bókum og plötum stjörnur.
Stjörnurnar voru síðan óspart notaðar í auglýsingum, í blöðum og sjónvarpi.
Hvert sem maður leit í fjölmiðlunum var verið að flagga stjörnugjöfinni.
Ég held að þetta hafi keyrt úr hófi fram.
Í fyrsta lagi var maður hættur að taka mark á stjörnunum vegna þess að þær voru alltof margar og út um allt.
Í öðru lagi held ég að gagnrýnendur hafi að meðaltali gefið sirka einni stjörnu of mikið – margt er gott í íslenskum bókmenntum og tónlist, en það er eiginlega óhugsandi að svo mikið af frábærum hugverkum komi hér út eins og hefði mátt halda af stjörnuflóðinu.
Til dæmis sýnist mér að árið sé heldur veikt í skáldskapnum. Milli trjánna, smásagnasafn Gyrðis Elíassonar, ber af – það er eina prósaverkið sem ég myndi telja framúrskarandi.
Það má líka geta ljóðabókarinnar Rennur upp um nótt eftir Ísak Harðarson og svo einnar helstu uppgötvunar ársins, Bréfa til næturinnar, ljóðasafns eftir Kristínu Jónsdóttur frá Hlíð í Lóni. Það er óvenjulegt að slíkt öndvegisskáld stígi fram á fullorðinsaldri – með hreinan og persónulegan tón.
Bókmenntaárið var betra í ævisögum. Það er mikill fengur að ævisögum um margbrotna og skrítna menn sem settu svip á síðustu öld: Jóns Leifs, Ragnar í Smára og Þórberg Þórðarson.