Varðberg, félagið sem nú hefur verið lagt niður, starfaði í samstarfi við svokölluð Samtök áhugamanna um vestræna samvinnu Einkum stóðu félögin fyrir umfangsmiklum boðsferðum til höfuðstöðva Nató eða Bandaríkjanna. Sumir fjölmiðlamenn- og stjórnmálamenn fóru oft í þessar ferðir – þær voru skipulagðar í tengslum við skrifstofu Nató á Íslandi.
En nú er Nató búið að loka skrifstofunni. Það er líka öðruvísi umhorfs í utanríkismálunum.
WikiLeaks skjölin sýna að sumir stjórnmálamenn voru sármóðgaðir þegar Bandaríkjaher hvarf frá Íslandi, þeir upplifðu reiði og höfnun – eins og smáð eiginkona. Í raun var kippt burt einni meginstoð tilveru þeirra.
Úr bandaríska sendiráðinu leka líka póstar þar sem er gert lítið úr gáfnafari og þekkingu Íslendinga – til dæmis er sagt sumir hafi verið aðframkomnir af „ég sagði þér það“ veikinni þegar rússneskar herþotur birtust við Ísland 2007.
En ég hef alltaf gaman af því að rifja upp brag Böðvars Guðmundssonar frá því á árunum þegar herstöðvabaráttan stóð sem hæst.
Stöndum á Varðbergi Varðbergsmenn
vestræna samvinnu reynum enn
þrátt fyrir örlítil örðugheit
eins og í Chile og Watergate
Þrátt fyrir Íra í úfnum ham
Eykon og Moggann og Vietnam.