Af einhverjum ástæðum hefur lengi verið áhugi á að breyta stjórnarskránni. Til dæmis var skipuð sérstök nefnd til að undirbúa þetta verk árið 2005 – það var reyndar sjötta nefndin sem átti að vinna að breytingum á stjórnarskránni.
Fyrsta nefndin var skipuð 1942 og var undir forystu Gísla Sveinssonar. Hún lagði til breytingar sem þóttu nauðsynlegar á stjórnarskrá til að Ísland gæti orðið lýðveldi. Tólf manna endurskoðunarnefnd undir stjórn Sigurðar Eggertz var sett á laggirnar 1945. Hún var lögð niður 1947 þegar nefnd undir forystu Bjarna Benediktssonar tók við að rýna í stjórnarskrána.
Sú nefnd lauk ekki störfum og 1972 var enn reynt, þá var Hannibal Valdimarsson formaður nefndarinnar. Og svo var gerð enn ein atrenna 1978 í nefnd þar sem Gunnar Thoroddsen var í forsvari – Gunnar hafði einnig verið í nefndunum 1942 og 1972. Þessi fimmta nefnd átti að vinna að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, en svo fór að hún var einkum að krukka í kosningakerfið, fyrst undir forystu Gunnars en síðar tók við Matthías Bjarnason.
Loks var síðasta nefndin skipuð árið 2005. Jón Kristjánsson var formaður hennar, en aðrir nefndarmenn voru: Bjarni Benediktsson, Birgir Ármannsson, Guðjón A. Kristjánsson, Össur Skarphéðinsson, Jónína Bjartmarz, Kristrún Heimisdóttir og Steingrímur J. Sigfússon.
Til aðstoðar var ráðgjafanefnd sem var skipuð Eiríki Tómassyni, Björgu Thorarensen, Kristjáni Andra Stefánssyni og Gunnari Helga Kristinssyni – þeim hinum sama og hefur verið í nöp við stjórnlagaþigið.
Semsagt nóg af lögfræðingum, en samt eiga þessar nefndir það sameiginlegt að hafa allar meira og minna heykst á verkefninu.