Ég taldi 17 norrænar spennusögur í Bókatíðindum.
Það er slatti.
Norræna spennusagnafárið hlýtur að vera í hámarki.
Þetta er nánast eins og í gamla daga þegar fyrir hver jól komu út bækur eftir Alistair McLean, Desmond Bagley og Hammond Innes. Hér voru þessar bækur gefnar út í viðhafnarbandi – sem þekktist hvergi annars staðar og notaðar til jólagjafa.
Svo hurfu þær eins og aðrar bókmenntagreinar, og rétt eins og við munum horfa til baka til tíma norrænu spennusögunnar.
Bókmenntagreinar eins og frásögur af afrekum Norðmanna í stríðinu. Þegar ég var drengur kom út mikill fjöldi af slíkum bókum fyrir hver jól. Maður vissi allt um það þegar norskir andspyrnumenn sprengdu orkuverið í Rjukan.
Þá var líka mikið framboð á þjóðlegum fróðleik. Hlutur hans hefur snarminnkað.
Jú og bækur um spírítisma og dulræn málefni – þær voru svoleiðs auglýstar í sjónvarpi á fyrstu árum þess. Edgar Cacey og Erich von Däniken eins og heimilisvinir víða á Íslandi. Fyrir utan alla íslensku sjáendurna.
Svo gleymdust þeir líka. Og kannski voru guðirnir heldur ekki geimfarar?