Í ljósmyndabókinni Popppkorn er að finna myndir eftir Sigurgeir Sigurjónsson ljósmyndara. Sigurgeir var ungur maður þegar bítlaæðið reið yfir – árin þar á eftir varð hann helsti ljósmyndari íslenskra hljómsveita.
Myndirnar sem birtast af bókinni eru af flottu ungu fólki með attitúd – svaka voru margir fínir í tauinu á þessum árum – þær elstu eru frá fyrstu árum Hljóma og svo nær þetta fram yfir 1970, með viðkomu í Kinks og Led Zeppelin á Íslandi og yfir í Stuðmannahópinn. Þarna eru Rúnar Júl, Kalli Sighvats, Jónas R, Björgvin, Shady, Ray Davis, Robert Plant og Hendrix – svo hinir allra svölustu séu nefndir.
Tíðarandann bókstaflega lekur af blaðsíðunum, myndir Sigurjóns eru einstök heimild. Sumar komu á plötuumslögum, aðrar man maður eftir að hafa séð í auglýsingum eða umfjöllunum um hljómsveitir fyrir löngu.
Ég ætla að leyfa mér að birta eina mynd úr bókinni. Hún er reyndar aðeins á skjön við hljómsveitamyndirnar, en er engu að síður merkileg.
Myndin er af litríkum karakter í bæjarlífinu, Guðmundi Haraldssyni rithöfundi, og er tekin á Prikinu þar sem hann drakk gjarnan kaffi. Mig minnir að þessi mynd hafi líka verið birt í úrvali yfir bestu ljósmyndir á Íslandi.
Þessi mynd er þeirrar náttúru að hún gerir mann glaðan. Svipurinn á Guðmundi er óborganlegur.