Árni Alfreðsson líffræðingur skrifar grein í Fréttablaðið þar sem hann líkir deCode ævintýrinu í upphafi aldarinnar við forleik að því sem síðar kom í bólunni miklu sem sprakk með hvelli í október 2008.
Þarna tóku saman höndum framtíðar útrásarvíkingar, ráðamenn, fjölmiðlar til að búa til andrúmsloft sem var eins og á „peppfundum píramíðafyrirtækja“ eins og Árni orðar það.
Hann skrifar meðal annars:
„Ráðamenn og ríkisstjórn eru tíðir gestir á samkomum þar sem greint er frá stórkostlegum uppfinningum, forskoti fyrirtækisins eða þá að undirritaðir eru tímamótasamningar. Þetta líkist trúarsamkomum eða peppfundum píramídafyrirtækja. Frægasta dæmið er þegar Davíð situr í hásæti við undirritun samnings við þekkt lyfjafyrirtæki 1998. Í kjölfarið hefjast æðisgengin viðskipti með óskráð hlutabréf fyrirtækisins og atburðarás sem er alveg sambærileg við aðdraganda bankahrunsins áratug síðar.
Fyrirtækið bólgnar út með leifturhraða sem og kostnaður og tap við rekstur þess meðan hlutabréfin stefna í óþekktar hæðir. Sumarið 1999 þá kaupa ríkisbankarnir þrír, Landsbanki, Búnaðarbanki og Íslandsbanki hlutabréf í ÍE fyrir 6 milljarða króna til að forða félaginu frá gjaldþroti. Margeir Pétursson viðskiptasnillingur kallar þetta hins vegar traustsyfirlýsingu og „magnaðasta viðskiptatækifæri sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir“.
Bankarnir reyna auðvitað að losa sig við þessi bréf á sem hæsta verði. Til að tryggja áframhaldandi uppsveiflu hlutabréfanna þá er áróður fjölmiðla hertur enn frekar. Hver uppfinningin rekur aðra og yfirburðir, sérstaða og snilld eru „orð“ sem æ oftar eru notuð. Engu líkara en þarna sé komið uppkastið að frægri ræðu forsetans um íslenska efnahagsundrið.
Ef einhver gagnrýni heyrist þá er reynt að kæfa hana í hvelli. Oftar en ekki er það einhver ráðherra eða þingmaður sem stígur fram og talar um ómaklegar árásir og öfund. Viðbrögð sem allir kannast við frá því rétt fyrir hrun.“