Það er vandræðalegt við götur á Íslandi sem nefndar eru eftir ákveðnu fólki að fæstir gera sér grein fyrir því hver sú persóna er.
Þó er ein undantekning á þessu: Helga magra stræti á Akureyri. Það fer ekki á milli mála.
En göturnar í Reykjavík: Njálsgata, Kjartansgata, Bollagata, Ingólfsstræti, Egilsgata, Aragata. Það fylgja engar skýringar með og því ofurskiljanlegt að fæstir átti sig á því hvers eðlis er. Hversu margir ætli viti til dæmis að Geirsgata heitir eftir Geir gamla Zoëga?
Víða erlendis er siður að nefna götur eftir frægðarfólki, ekki síst í Frakklandi.
Þar er Avenue Charles de Gaulle, Boulevard Voltaire og Boulevard Louis Pasteur – einu sinni mátti meira að segja lesa út úr götuheitum bæja hverjir hefðu fari þar með stjórn. Í bæjum þar sem kommúnistar réðu voru torg og götur sem báru nöfn Marx og Engels.
Við höfum ekki farið þá leið að nefna götur eftir stjórnmálamönnum – ekki hingað til. Fæstir hugsa líklega út í það að Skúlagata er nefnd eftir Skúla fógeta, en við höfum ekki götu Ólafs Thors eða Einars Olgeirssonar.
Nú á hins vegar að láta til skarar skríða í þessu efni. Skúlagata fær ekki lengur að heita þessu nafni, hún á að verða Bríetartún, eftir Bríeti Bjarnhéðinsdóttur.
Og svo eiga nálægar götur, Skúlatún, Sætún og Höfðatún, að heita Guðrúnartún, Þórunnartún og Katrínartún.
Líklega munu fæstir hugsa út í það, en þetta eru nöfn Guðrúnar Björnsdóttur, Þórunnar Jónassen og Katrínar Magnússon. Þetta eru kvenskörungar frá fyrri tíð, en það verður að segja eins og er að þær eru ekki ýja þekktar.
Fyrst búið er að opna þessar dyr blasa við tækifæri til að breyta götuheitum út um allt – það er fullt af fólki sem er verðugt að fá sínar götur. Breiðstræti Jóns Sigurðssonar er ekki til – og svo mætti hugsa sér lítið sund sem fengið nafn Jóns landritara. (Það fór reyndar frekar illa fyrir honum, en hann var sannur umbótamaður.)
Svo er hægt að deila um þessi götunöfn fram og aftur og þá gætum við gleymt, þó ekki nema um stundarsakir, þesssari bansettu kreppu sem er allt að drepa úr leiðindum.
Jón landritari ætlaði að hreinsa til í spillingarbælinu Reykjavík. Hann var mikill ákafamaður, en bilaði á geði og dó skömmu síðar.