Ég var í viðtali við BBC World Service í gær. Þátturinn fjallaði um atburðina á Írlandi, þeir vildu fá samanburð frá Ísland.
Ég reyndi að skýra út að Íslendingar hefðu farið aðra leið við að höndla hrunið bankakerfi en Írar, ríkið hefði ekki tekið á sig erlendar skuldir bankanna, heldur hefði mikið af þeim lent á kröfuhöfum – en bankar með nýjar kennitölur hefðu verið reistir á grunni gömlu bankanna, meðal annars með skuldum hundóánægðs almennings.
Útvarpsmaðurinn virtist ekki hafa sérstakan áhuga á þessu. Þetta er þó ansi mikilvægur punktur. Og eins sú staðreynd að íslenska krónan hefði fallið óskaplega.
Hins vegar var það þrennt sem kveikti svo í honum að hann fór að spyrja mig nánar út í það.
Að Íslendingar væru á botninum, tveimur árum eftir að hrunið, honum fannst það greinilega langt.
Að Íslendingar ætluðu að fara að halda sérstakt stjórnlagaþing – á Írlandi eru líka uppi kröfur um að hreinsa stjórnmálakerfið.
Og að Íslendingar væru að setja fyrrverandi forsætisráðherra fyrir dóm, honum fannst greinilega dálítið áhugaverð tilhugsun að Brian Cowen, taoiseach þeirra Íra, fengi slíka meðferð.