Það er að sumu leyti erfitt að vera stjórnmálamaður á tíma internets, bloggs og stöðugra spjallþátta í sjónvarpi.
Það er auðvelt að missa einbeitinguna þegar mestur hávaðinn er í nýmiðlunum, fara á taugum – vera eins og lauf í vindi.
Stjórnmálamenn höfðu vissulega meiri frið þegar samskiptin voru ekki svona almenn og ekki svona hröð. Nú geta allir verið með, allir hafa sína rödd, einokun á upplýsingum heyrir sögunni til. Það þarf enginn lengur að fara á ritstjórnarskrifstofur manna eins og Matthíasar og Styrmis til að fá að vera gjaldgengur í umræðunni.
En það þýðir samt ekki að sakna þeirra tíma þegar menn biðu eftir bréfum sem bárust með skipi frá kansellíinu í Kaupmannahöfn. Þeir tímar koma ekki aftur.
Internetið og bloggið og spjallþættirnir eru veruleiki sem mun ekki breytast. Þetta er heldur ekki bara raunin hér, í Bandaríkjunum hefur þingmaðurinn Jay Rockefeller til dæmis vakið athygli fyrir að segja að internetið sé þjóðarvá númer eitt.
Því er heldur ekki hægt að neita að veruleikinn sem birtist manni á netinu er oft býsna brotakenndur , það er glundroðakennt eins og heimurinn sjálfur.
En þetta hefur líka sínar góðu hliðar. Það er auðveldara að koma upplýsingum á framfæri, erfiðara að stunda leynimakk og komast upp með spillingu. Það er erfiðara að segja fólki að það sé af góðsemi eða vegna gereyðingarvopna að ráðist var inn í Írak eða að það sé vit í efnahagskerfi heimsins. Ógnarstjórnir eins og í Kína og Norður-Kóreu takmarka aðgang þegnanna að internetinu. Gamlar valdamiðstöðvar eins og kirkjan eiga í vök að verjast á netinu.
Eftir hrunið á Íslandi var umræðan á internetinu lifandi og kvik, gömlu prentmiðlarnir sátu eftir – það verður varla séð að þeir hafi mikið fram að færa umfram það sem er að finna á netinu. Upplýsingastraumurinn um athæfi hrunverja í fjármálastofnunum og stjórnkerfinu var ekki síst í gegnum netið. Þegar hrunkvöðlar reyndu að ljúga sig út úr flækjunum voru þeir samstundis reknir á gat á netinu.
Bloggið og Facebook gerir mann stundum þunglyndan eins og Sölvi talar um, og það er auðvitað dálítið lýjandi hvað það er mikið af skoðunum út um allt á netinu og lítið af beinhörðum upplýsingum í hlutfalli við þær. En þá getur maður spurt á móti hversu mikið af upplýsingunum sem maður fær í hefðbundnum miðlum séu trúverðugar og hversu mikið sé áróður, misjafnlega vel dulbúinn – og hvort ástandið á netinu sé eitthvað óheilbrigðara en til dæmis á blöðunum þar sem peningaöflin hafa sín sterku áhrif.