Þjóðleikhús Noregs stendur á fallegum stað í miðborg Osló, á milli konungshallarinnar og Stórþingsins, Karls Jóhannsgötu og Stórþingsgötu. Þetta er helsta musteri Ibsens í veröldinni, svo það er mikill heiður fyrir Baltasar Komák að leikstýra sjálfri Villiöndinni þar. Ibsen hefur verið leikinn ótal sinnum þarna á fjölunum – og andi hans lifir í húsinu.
Þegar ég var strákur fékk ég mikla dellu fyrir Ibsen. Það var kannski ekki af annarri ástæðu en að heildarsafn leikrita hans var til upp í hillu heima. Ég fór að lesa mig í gegnum þetta og var svo áhugasamur að þegar ég var 18 ára gerði ég mér sérstaka ferð til Osló á slóðir Ibsens. Sat á veitingahúsinu á Grand hótelinu þar sem hann kom á hverjum degi, fór á Þjóðbókasafnið og las mér til um Ibsen og sótti svo leiksýningar í Þjóðleikhúsinu um kvöldið.
Man að ég sá leikrit sem heitir Fruen fra havet og hins vegar Gengangere. Hið fyrra er frá síðasta skeiði Ibsens þar sem symbólismi er orðinn áberandi í verkum hans – það er sjaldan leikið – sem nefnist Afturgöngur á íslensku fjallar á nístandi hátt um hræsni borgaranna. Það vakti mikla hneykslun á sínum tíma.
Fyrir mér hefur Ibsen alltaf verið hinn dverghagi smiður. Bygging leikrita hans er ótrúlega nákvæm, hvernig persónurnar eru afhjúpaðar í gegnum orð sín. Það verður ekki betur gert. Fyrir leikritaskáld hlýtur að vera skóli að rýna í verk Ibsens, en um leið er hætt við að menn finni til smæðar sinnar gagnvart slíku trölli.
Á seinni hluta æviskeiðs síns ímynda ég mér líka að hann hafi verið eins og einhver tegund af trölli – þar sem hann gekk inn á Grand með pípuhattinn, þykka bartana og lonníetturnar.
Fræg veggmynd á Grand Café í Osló. Í horninu sést Ibsen ganga inn á staðinn eins og hann gerði á hverjum degi. Á myndinni má líka greina Edward Munch. Norðmenn voru ekki snauðir af miklum listamönnum á þessum tíma, þeir áttu líka Grieg, Björnsterne Björnson og nokkru síðar Hamsun.
Þjóðleikhúsið í Osló. Það var opnað 1899 en rekur sögu sína aftur til Kristíaníuleikhússins sem var stofnað 1829.