Það er komið í tísku að tala illa um Hagsmunasamtök heimilanna og aðra sem berjast fyrir skuldaleiðréttingu. Endalaust hljómar söngurinn að þetta sé óráðsíufólk sem geti ekki staðið skil á ruglinu sem það kom sér sjálft í.
Í nýrri lífskjararannsókn Hagstofunnar segir að nálega helmingur heimila hafi átt erfitt með að ná endum saman á árinu.
Það er ýmislegt sem hefur kollvarpað fjárhagsstöðu heimilanna. Hjá þeim sem skulda húsnæðislán eru þau stærsti þátturinn, hvort sem þau eru verðtryggð eða gengisbundin. Hækkanirnar eru upp á tugi prósenta.
Það munar um minna á tíma þegar laun lækka, yfirvinna dregst saman, atvinnuleysi herjar á, skattarnir hækka, gjaldmiðillinn er hruninn – jú, það er ekki ofmælt hvað allt hefur hækkað í þessu landi!
Margir eru að lenda í vanskilum – en svo eru það hinir sem eru að glíma við fyrirbærið sem nefnist „greiðsluvilji“.
Þetta er eitthvert ógeðslegasta hugtak í íslenskri tungu. Það er talað um að halda greiðsluviljanum, að hafa fólk á einhverjum mörkum svo það hætti ekki að borga – þannig að hér myndist ekki ástand eins og lýst var í ítalska leikritinu Við borgum ekki.
Á sama tíma er verið að endurreisa gömlu bankana sem stýrðu þjóðinni í hrun í nánast óbreyttri mynd. Þetta er mjög furðulegt. Enginn sér að sé þörf á þessu bankabákni.
En bankarnir hafa kastað syndunum á bak við sig – maður er fullvissaður um að þetta séu ekki sömu bankar og voru fyrir hrun þótt sama fólkið starfi í sama húsnæði.
Það má spyrja hvaða réttlæti er í þessu. Stór hluti þeirra sem eiga erfitt með að ná endum saman er ekki óráðsíufólk. Það lenti einfaldlega í því að efnahagslegar forsendur fyrir tilveru þess gjörbreyttust á skammri stundu.
Það situr uppi með skellinn, hjá mörgum er skuldirnar komnar langt fram yfir verðið á húsnæðinu, og það sér ekki fram á annað en að strita við að borga fram yfir gröf og dauða.