Það eru stórtíðindi ef fjölmiðlaveldi 365 er til sölu.
Gunnar Smári Egilsson ýjaði reyndar að því grein sem hann sendi til Eyjunnar fyrir nokkrum dögum.
Það hafa löngum verið átök um eignarhaldið á þessu fyrirtæki. Ekki endilega vegna þess að þetta sé svona mikill gróðabisness, heldur vegna áhrifanna sem eign á svo stórum fjölmiðlum veitir.
Það voru eilífar sápuóperur í kringum Stöð 2, Jón Ólafsson náði loks tökum á fyrirtækinu, hann varð persona non grata hjá valdamönnum í þjóðfélaginu, seldi svo til Jóns Ásgeirs – sú saga er þekkt.
Maður hélt að Jón Ásgeir myndi hanga á þessu í lengstu lög, þó ekki sé nema vegna þess að þá er hann ennþá einhvers konar þátttakandi í íslensku athafnalífi. Elín og Sigurjón í Landsbankanum bjuggu svo um hnútana við hrunið að Jón gat haldið 365. En kannski er kominn sá tími að hann getur ekki varið þessa eign sína lengur – hann er reyndar búinn að skrifa hana á konu sína.
Nú er spurning hvort hefst á nýjan leik barátta um þetta volduga fjölmiðlafélag. Þarna er stærsta dagblað Íslands, stærsta einkasjónvarpsstöðin og nokkrar minni stöðvar. Á íslenskan mælikvarða er þetta mjög stórt.
Gunnar Smári segir að félagsskapur sem hann kallar „Dauða herinn“ vilji ná undir sig fjölmiðlum 365 með því að semja við bankana. Það er athyglisverð kenning.
En einhverjir aðrir hljóta samt að hugsa sér gott til glóðarinnar, með þeim fyrirvara að fjölmiðlarekstur á Íslandi er yfirleitt botnlaust tap og snýst frekar um völd en gróða.