Ég ætla að biðjast afsökunar fyrirfram að hafa notað erlent orð í upptöku á Kiljunni í dag – á degi íslenskrar tungu.
Þátturinn verður sýndur annað kvöld.
Orðið er grafómanía – þýðir ritæði.
Þegar ég fletti Bókatíðindum er ég ekki alveg frá því að þessi litla þjóð sé með snert af þessu.
Mér varð reyndar líka hugsað til þess í gær þegar ég var á biðstofu lækna og virti fyrir mér alls konar tímarit sem hér eru gefin út.
Og öll blöðin og bloggið.
Við erum náttúrlega á heimsmælikvarða í mörgu, en ætli sé nokkur þrjú hundruð þúsund manna hópur í heiminum sem sendir frá sér jafn mikið af rituðu máli.
Og það á tungumáli sem enginn annar getur lesið.