Samgöngumiðstöð í Vatnsmýri var glötuð framkvæmd – ekki bara vegna þess að örlög flugvallarins eru óráðin.
Og þau eru ekki bara óráðin vegna þess að sumir vilji losna við hann, heldur líka vegna þess að umfang umferðar um völlinn er óvíst.
Vegakerfið hefur batnað mjög og nú kjósa æ fleiri að aka í stað þess að fljúga. Flug til Vestmannaeyja minnkar með tilkomu Landeyjarhafnar, það er hægt að aka á malbiki alla leið til Ísafjarðar, sá kippur sem kom í flug til Austurlands vegna framkvæmdanna við Kárahnjúka er ekki lengur.
En aðalástæðan er samt sú að samgöngumiðstöðin passaði alls ekki inn í skipulagið í Reykjavík. Þarna áttu að koma strætisvagnar og rútubílar. En þetta er í raun út úr í borginni. Miðstöð fyrir slíka umferð þarf að vera miðsvæðis og liggja betur við samönguæðum.
Þannig að alveg burtséð frá því hvort flugið verður áfram eða ekki þarf að finna aðra lausn en þessa stórbyggingu.