Á Íslandi var byggt upp kerfi þar sem stjórnmálaflokkar réðu lögum og lofum. Fólk komst áfram í lífinu með því að ganga í stjórnmálaflokka. Það fékk fyrirgreiðslu, frama í starfi, lán í bönkum, lóðir.
Stjórnmálaflokkar og þeir sem voru hliðhollir þeim sátu að hermanginu.
Og þetta hefur haldið áfram í einni eða annarri mynd. Flokkarnir og kommisarar þeirra sáu til þess að bankar og fyrirtæki voru einkavædd í hendur vildarvina – og samkvæmt rannsóknum hafa ráðningar í stöður í stjórnkerfinu verið rammpólitískar alveg fram á þennan dag.
Menn hafa samt reynt að fela þetta – af því pólitísk fyrirgreiðsla af þessu tagi er illa þokkuð.
Á sínum tíma vann ég á Helgarpóstinum sem fjallaði mikið um þetta samfélag og var mjög krítískur á það. Einu sinni var til dæmis dregin upp mynd af því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn skiptu jafnt á milli sín sýslumönnum í landinu.
Ellert Schram sagði eitt sinn frá því að þegar hann var ungur maður í Sjálfstæðisflokknum var hann hafður til að passa upp á að lífsgæðin hér í Reykjavík rötuðu í réttar hendur. Í Braggabók Eggerts Þórs Bernharðssonar sagnfræðings segir frá manni sem kvartar undan því að fá ekki inni í Höfðaborg, einu slömmi Reykjavíkur, þótt hann hafi passað upp á að ganga í flokkinn – það var annar sem var tekinn fram fyrir hann.
Í rauninni er þetta geysilega áhugavert efni fyrir duglegan sagnfræðing – að gera rannsókn á flokksræðinu á Íslandi eins og það mótast frá því fyrir stríð og lifir allt fram á vora daga.