Á hverju ári, um þetta leyti, setja Englendingar upp lítil rauð blóm (oftast úr pappír, þótt til séu dæmi um að þau séu sé úr fínna efni), til að minnast fallinna í fyrri heimsstyrjöldinni.
Þetta er svosem ágætur siður. Nú erum við reyndar komin á þann stað að enginn er lengur á lífi sem barðist í þessu stríði. Síðasti enski hermaðurinn, Harry Patch, dó í fyrra, 111 ára að aldri.
Styrjöldin var blóðug, hryllileg og fyrst og fremst tilgangslaus.
Hún spratt meðal annars upp úr heimsvaldastefnu stórvelda, braust svo út líkt og af slysni, kóngar og keisarar í ríkjum sem börðust voru náskyldir, allt var þetta eins og hámark fáránleikans.
Í fyrri heimstyrjöldinni er að leita orsaka hinna síðari – það var af völdum hennar að kommúnistar komust til valda í Rússlandi og nasistar síðar í Þýskalandi. Þetta er algjör lykilatburður í sögu tuttugustu aldarinnar.
Hernaðurinn byggði aðallega á því að ungir karlmenn voru reknir í milljónatali út á vígvellina, nánast eins og búfénaður, og þeim slátrað í þeim tilgangi að ná örlitlum hernaðaryfirburðum, kannski bara fáum metrum. Þetta var óvenju kaldrifjað og miskunnarlaust – þeir sem reyndu að komast undan voru skotnir fyrir liðhlaup beggja vegna víglínunnar.
Það er ekkert dýrðlegt við þetta – það var bara hryllilegt og glæpsamlegt.
En ég byrjaði á litlu pappírsblómunum sem maður sér aðallega í jakkaboðungum breskra stjórnmálamanna á þessum tíma.
Eins og ég segi eru þau ágæt. Það er rétt að hugleiða þessar hörmungar endrum og eins. En þegar ég kem til London sé ég styttur af mönnum sem keyrðu þetta blóðbað áfram. Hershöfðingjum eins og Douglas Haig og John French. Í Frakklandi er að finna styttur af Joffre. Þjóðverjar kusu Hindenburg sem forseta, en eftir seinna stríð hafa lítt verið hafðar uppi styttur af honum og Ludendorff.
Konan mín veit að ég fer alltaf að tuða þegar ég sé þessar styttur af svona körlum. Og stundum skyrpi ég svo lítið ber á. Ég get vart hugsað mér fyrirlitlegri menn.
Hryllingurinn í skotgröfunum, málverk eftir þýska listamanninn Otto Dix. Dix var hermaður við Somme og á Flandri. Nasistar þoldu ekki verk hans og eyðilögðu mikið af þeim.