Nýútkomnar íslenskar bækur verða til umfjöllunar í Kiljunni í kvöld.
Við förum austur í Reynisfjöru í Mýrdal, en þar bjó Jón Steingrímsson, síðar kallaður eldklerkur, í helli veturinn 1755. Það sama ár gaus Katla og voru miklar hörmungar í landi. Ófeigur Sigurðsson hefur skrifað skáldsögu um Jón og vist hans í hellinum.
Óskar Hrafn Þorvaldsson blaðamaður segir frá spennusögu sinni sem nefnist Martröð millanna – þetta er blóðug glæpasaga sem fjallar um útrásarvíkinga, sukk þeirra og ríkidæmi.
Og meira um útrásarvíkinga – eða þannig.
Lára Björg Björnsdóttir er höfundur bókar sem nefnist Takk útrásarvíkingar! Bókin fjallar samt eiginlega ekki um útrásarvíkinga, heldur er þetta gamansöm lýsing á lífi ungrar konu í Reykjavík á árunum 2008 til 2010.
Kolbrún og Páll Baldvin ræða um þrjár bækur: Þóru biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar eftir Sigrúnu Pálsdóttur, Sýrópsmánann eftir Eirík Guðmundsson og ljóðabókina Þrjár hendur eftir Óskar Árna Óskarsson.
Reynisdrangar við Reynisfjöru en þar dvaldi Jón Steingrímsson veturinn 1755 á miklum umbrotatímum í lífi hans sjálfs og þjóðarinnar.