Fyrsta veður sem ég hafði af Ragnari Bjarnasyni var fjögurra laga plata með jólalögum þar sem hann og Ellý Vilhjálms sungu saman. Þetta hefur verið ein fyrsta hljómplatan sem ég eignaðist. Hún mun hafa verið gefin út 1964.
Ragnar endist ótrúlega vel. Meira en fjörutíu árum síðar eignaðist ég jólaplötu sem hann gerði með lögum eftir Gunnar Þórðarson – og eftir sjálfan sig – hún hljómar núorðið hjá mér um hver jól.
Gunnar endist líka vel. Ég var á fimmtudagskvöldið í Salnum í Kópavogi þar sem Jón Ólafsson spjallaði við Gunnar og þeir léku saman á píanó og gítar. Þetta var í anda sjónvarpsþáttanna góðu Af fingrum fram.
Þetta var fjarska skemmtileg kvöldstund. Næsti gestur Jóns verður einmitt Raggi Bjarna.
Jón Egill sem stjórnaði upptökum á þáttum Jóns sagði mér að þeir hefðu gert sextíu þætti með þessu sniði. Ég áttaði mig ekki á því að þeir hefðu verið svo margir – þeir hafa sennilega verið komnir dálítið neðarlega í bunkann. En þættirnir voru skemmtilegir og stórmerkileg heimild um íslenska tónlist.
Ekki allir hafa haft jafnmikla sögu og Gunnar og Raggi – það eru menn sem eru í mörgum bindum. Ferill Ragga Bjarna spannar 60 ár, en Gunnar Þórðarson hefur samið meira en 600 lög á ferli sem nær aftur til 1963.
Báðir þessir menn eru þjóðargersemi – og það er frábært að þeir skuli vera við svo góða heilsu.
Þegar maður kynnist Gunnari finnur maður að hann lifir í tónlist, hann er músík út í gegn. Sjálfur segist hann aldrei hafa átt neitt annað áhugamál. Hann sagði á fimmtudagskvöldið að hann hefði unnið nokkur störf þegar hann var ungur maður í Keflavík, í fiski, í blikksmiðju, í þvottahúsinu á Vellinum og hann keyrði offíséra – þá snerist allt um herinn. Pabbi hans kom suður fá Hólmavík til að vinna á Vellinum, þar voru peningarnir og uppgripin. Byggði hús og fjölskyldan kom á eftir og flutti inn í fokhelt. Svo fór tónlistin að hljóma ofan af Velli – og allt umturnaðist í Keflavík. Gunnar sagðist ekki hafa unnið við annað en tónlist síðan.
Giggin voru misjöfn. Það var keyrt um landið og spilað á stöðum þar sem voru landlegur. Þetta voru síldarár – og peningar í síldarplássunum. Það var spilað á Raufarhöfn og svo var skrölt suður á Hornafjörð.
Og Ragnar – hann er búinn að skemmta mörgum kynslóðum Íslendinga. Pabbi hans Bjarni Böðvarsson var með danshljómsveit, sonurinn spilaði fyrst á trommur áður en hann fór að syngja. Svo var hann með KK og Svavari Gests og Sumargleðinni og með sína eigin hljómsveit – lengi á Sögu. Það er oft sagt að hann kunni ekki textana, en hann bjargar sér nú samt.
Það er alltaf jafn mikill fögnuður þegar hann birtist, það hef ég upplifað mörgum sinnum, hvort sem áhorfendurnir eru ungir og gamlir. Hann hefur einfaldlega góð áhrif á fólk hann Raggi, og myndin sem Árni Sveinsson er búinn að gera um hann kemur manni í gott skap. Hún heitir Með hangandi hendi – hvað annað? – hérna eru brot úr henni:
[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=mdBkzkdvjFU]