Tveir frábærir rithöfundar eru gestir í Kiljunni í kvöld..
Sofi Oksanen kemur frá Finnlandi. Hún hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsögu sína Hreinsun. Í gær var svo tilkynnt að bókin hefði fengið hin virtu Prix Femina verðlaun í Frakklandi.
Hreinsun gerist aðallega í Eistlandi og fjallar um líf undir Sovét-kommúnismanum og árin eftir að hann hrundi og fórnarlömb kúgunar, mansals og ofbeldis. Þetta er fjarskalega áhrifarík bók.
Guðbergur Bergsson kemur í þáttinn og talar um skáldsögu sína sem heitir Missir, ellina, skáldfrægðina, kreppuna og Tómas Jónsson.
Í fyrsta hluta þáttarins fjöllum við um Bókina um Bigga eftir Þröst Helgason, Doris deyr eftir Kristínu Eiríksdóttur og nýja ljóðabók Gerðar Kristnýjar sem nefnist Blóðhófnir.