Orkubloggarinn, Ketill Sigurjónsson, ritar pistil um raforkusölu með sæstreng til Evrópu. Niðurlagsorðin eru svohljóðandi:
— — —
„Það er hárrétt sem Heiðar Már segir í umræddu viðtali, að svona strengur myndi gjörbreyta samningsstöðu Landsvirkjunar gagnvart stóriðjunni. Álbræðslurnar hér á landi eru í áratugi búnar að mergsjúga til sín allan þann arð sem myndast í raforkuvinnslu á Íslandi. Stóriðjan hefur tvímælalaust borð fyrir báru til að greiða umtalsvert hærra raforkuverð en það sem hún hefur komist upp með til þessa.
En það getur orðið vandasamt að ná fram hækkunum hér á raforkuverði til stóriðjunnar – nema að búa til nýja eftirspurn og virkari samkeppni um orkuna. Það gæti gerst með svona 10-20 gagnaverum (sic) og/eða með því að leggja sæstreng til Evrópu (eða Kanada).
Að þessu þarf að vinna af krafti. Þetta gæti orðið eitt mesta hagsmunamál þjóðarinnar og skapað mikinn arð af raforkuframleiðslunni. Þarna dugir þó ekki óðagot. „Svarthöfði“ verður að passa sig á að halda bjartsýninni í hófi. En sé það rétt að 3 milljarðar evra séu tiltækir núna, verður reyndar varla erfitt að útvega fjármagn í þetta þegar þar að kemur. Þannig að kannski er barasta fyllsta tilefni til bjartsýni.“