Ég bý niðri í bæ og útifundir eru nánast eins og í hlaðvarpanum hjá mér.
Einn sá fjölmennasti sem ég hef séð lengi var á Arnarhóli núna áðan. Ég gekk út í slagviðrinu og hlustaði á söng og ræður.
Það ríkti góður andi á fundinum, enda baráttumálin svo sjálfsögð að á eiginlega ekki að þurfa að ræða það: Gegn kynbundnu ofbeldi og fyrir launajafnrétti milli kynjanna.
Ég var unglingur þegar kvennaverkfallið var 1975. Ég var í tíma í þriðja bekk í MR, gekk út og við blasti ótrúlegur mannfjöldi á Lækjartorgi. Eftir á að hyggja er þetta einn af stórum viðburðum sem ég hef verið viðstaddur. Þá var ekki endilega um það að ræða að konur fengju frí – margar gengu einfaldlega bara út til að fara niður í bæ.
Ræða Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur er ógleymanleg, hún talaði beint inn í hjarta þeirra sem hlýddu. Þessi baráttukona varð þjóðhetja á samri stund.
Á fundinum núna áðan var sérstaklega klappað fyrir leikskólakennurum. Það fannst mér gott. Ég hef aldrei skilið af hverju leikskólakennarar sem passa börn – það dýrmætasta í heiminum – hafa svo miklu lakari laun en þeir sem passa til dæmis peninga.