Meðal þess sem er rannsakað hjá sérstökum saksóknara er markaðsmisnotkun bankanna, aðferðir sem þeir notuðu til að halda uppi hlutabréfaverði í sjálfum sér. Um þetta var reyndar oft rætt á árunum fyrir hrun, margir þóttust vita að notaðar væru einhver ráð til að falsa hlutabréfaverðið.Í raun eru þetta mjög alvarleg fjársvik, enda er tilgangurinn sá að blekkja hluthafa og fá fleiri til að leggja fé í fyrirtækið.
En þróunin hefur verið býsna hröð. Í viðtali við Lárus Welding, þáverandi bankastjóra Glitnis, skömmu fyrir hrun spurði ég hann hvort hann kannaðist við Stím. Hann sagði að svo væri ekki. Nú er alkunna að Stím og svipuð félög voru notuð til að halda uppi verðinu á hlutabréfum í Glitni. Í raun eru þetta frekar klaufalegar og kauðskar aðferðir – bankinn lánar peninga í svona félög og peningarnir eru svo aftur notaðir til að kaupa hlutabréf í bankanum. Hlutabréfaverðið hækkar – eða að minnsta kosti er hægt að verja það falli.
Í Kaupþingi snýst dæmið að talsverðu leyti um hlutabréfaeign starfmanna, en þar eru líka fléttur eins og í kringum kaupsýslumanninn Al Thani frá Quatar. Og svo er það Landsbankinn, sem virðist hafa nokkuð lævíslegri í markaðsmisnotkun sinni en hinir bankarnir. Fjármálaeftirlitið hefur nú sent sérstökum saksóknara mál sem tengist markaðsmisnotkun Landsbankans.
Sigrún Davíðsdóttir fjallaði um þetta í Speglinum fyrir helgi og sagði meðal annars:
— — —
„Fjármálaeftirlitið sendi í fyrra mál til sérstaks saksóknara um meinta markaðsmisnotkun Kaupþings og Glitnis. Nú er röðin komin að Landsbankanum. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sýnir að kerfið sem Landsbankinn notaði utan um eigin bréf var bæði flókið og ógagnsætt. Eitt þessara félaga er líka samslungið Samson, eignarhaldsfélagi feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors.
Kjarninn í meintri markaðsmisnotkun Landsbankans er að öllum líkindum aflandsfélög sem áttu að því er virtist að halda utan um kauprétti starfsmanna. Í rannsóknarskýrslunni er sagt frá átta slíkum félögum. Eitt var stofnað árið 2000 á Guernsey en sjö voru stofnuð 2004-2007 á Tortólu og í Panama. Alls héldu þessi félög um 13,2 prósenta hlut í bankanum. Erlendis nemur kaupréttareign af þessu tagi sjaldnast nema 1-2 prósentum.
Framan af fjármagnaði Landsbankinn félögin en 2006, þegar Björgólfur Thor er að verða stærsti hluthafinn í Straumi, tekur sá banki að fjármagna sex þessara félaga. Sá sem fór með félögin innan Landsbankans var Kristján Gunnar Valdimarsson lögfræðingur.
Straumur kallaði ekki eftir ábyrgðum frá Landsbankanum vegna þessara lána. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar er hnykkt á að Björgólfur Thor var stærsti hluthafinn í báðum bönkunum. Landsbankinn lánaði Straumi í samskonar félög, alls 6,1 milljarð en Straumur lánaði Landsbankanum 14 milljarða í svona félög. Glitnir og Kaupþing fjármögnuðu svo hvor sitt félagið.
Ef af hverju átta félög? Af hverju ekki bara eitt félag til að sjá um alla kaupréttarsamningana? Svarið er líklega að þessi félög áttu ekki að sjást sem eigendur bréfa. Í rannsóknarskýrslunni segir allt benda til að þarna hafi bankinn komið sér hjá flöggunarskyldu vegna bréfa sem hann átti sjálfur.
Samkvæmt skýrslunni nýttust þessi félög meðal annars til að hækka verð á hlutabréfum bankans. Þegar eitt félagið fær til dæmis 6 milljarða að láni og fer að kaupa bréf Landsbankans þá lítur út eins og það sé mikill áhugi á hlutabréfum í Landsbankanum og þau hækka í verði. Markaðurinn vissi ekki að þetta var bankinn sjálfur að braska með eigin bréf. Kaupin voru því röng skilaboð og þá hugsanlega markaðsmisnotkun.
Þó þessi félög litu út eins og þau héldu um kauprétti starfsmanna voru þau í raun ekki notuð þannig. Í skýrslunni segir að ekki verði séð ‘að Landsbankinn hafi dregið á eign aflandsfélaganna’ þegar starfsmenn leystu út kauprétti. Einn heimildarmaður Spegilsins segir rannsóknarnefndina hafa skoðað þessi félög rækilega en á endanum í raun ekki vitað nákvæmlega hvernig þau voru notuð. Þessi heimildarmaður bendir á að alveg frá 2006 hafi félögin verið notuð til að bjarga málum eða svindla með eigið fé, allt eftir því hvernig á það er litið. Eitt félaganna var til dæmis í vörslu hjá Arion-verðbréfavörslu og þá leit út eins og Arion ætti Landsbankabréfin.
En ef félögin gögnuðust ekki starfsmönnunum hverjum gögnuðust þau þá? Þau gögnuðust bankanum því eiginfjárgrunnur bankans virtist stærri, það er hann virtist eiga meira eigið fé og gat þá haft meira fé umleikis. Og félögin gögnuðust kjölfestufjárfestunum. Björgólfsfeðgar fengu að eiga 45,8 prósent í bankanum. Í viðbót má segja að þeir hafi svo vitað af þessum rúmlega 13 prósenta óvirka eignarhlut sem fólst í aflandsfélögunum. Eins og bent er á í rannsóknarskýrslunni styrkti þessi óvirki eignarhluti yfirráð feðganna.“