Michael Pollan, höfundur bókarinnar Food Rules sem nú er til á íslensku undir heitinu Mataræði, setur fram margar umhugsunarverðar reglur um mat í bókinni. Til dæmis:
Ekki kaupa mat þar sem þið fyllið bílinn.
Varið ykkur á mat sem er auglýstur í sjónvarpinu.
Haldið ykkur á útjöðrum stórmarkaða, varist það sem er í miðjunni.
Þessu tengt:
Borðið mat sem rotnar (hann er á útjöðrum stórmarkaðanna).
Borðið máltíðir.
Borgið meira fyrir matinn en borðið minna.
Borðið mat, ekki of mikinn, aðallega plöntur.
Ekki borða neitt sem amma ykkar hefði ekki kannast við að sé matur.
Í bókinni er Pollan að setja fram á einfaldan hátt hluti sem hann hefur skrifað um í fyrri bókum sínum, The Omnivore´s Dilemma og In Defense of Food. Hann kom einnig fram í hinni áhrifamiklu heimildarmynd Food Inc. Pollan, sem er prófessor í blaðamennsku í Berkley, var fyrr á þessu ári valinn einn af 100 áhrifamestu mönnum í heimi af Time Magazine.
Pollan var gestur í Silfri Egils 17. október eins og sjá má hérna, en hingað til lands kom hann til að taka við verðlaunum úr Lennon/Ono friðarsjóðnum.