Ef marka má skjölin sem WikiLeaks vefurinn er að birta var mannfall í styrjöldinni í Írak mun meira en haldið hefur verið fram, sérstaklega meðal óbreyttra borgara. Stríðið sem var byggt á lygum – og átti að enda með almennum fögnuði þegar Bandaríkjamenn og Bretar hæfu innreið sína í Bagdad – reyndist vera býsna blóðugt.
Í skjölunum kemur fram að að 109.032 manns hafi látist í stríðinu, þar af rúmlega 66 þúsund borgarar, tæplega 24 þúsund svotaldir óvinir Bandaríkjahers, 15 þúsund íraskir hermenn og 3.772 hermenn úr liði bandamanna svonefndra.
Það er varla hægt að hugsa sér verra brot hjá stjórnmálamanni en að beita lygum til að stofna til styrjaldar. Skömm þeirra sem stóðu að stríðnu er mikil – og það er ekki réttlæting fyrir ósannindunum að Saddam Hussein hafi verið ógeðslegur harðstjóri.
Um lekann á WikiLeaks er fjallað í fjölmiðlum um allan heim í kvöld. WikiLeaks verður svo með blaðamannafund á morgun. Þess má geta að íslenskur fréttamaður, Kristinn Hrafnsson, hefur starfað ásamt WikiLeaks að birtingu skjalanna.