Á Marylebone High Street er grískur veitingastaður sem er farinn að láta nokkuð á sjá.
Þar sést aldrei neinn gestur. Konan mín segist hafa frétt að maturinn sé mjög vondur.
En þar er lagt á borð hvert kvöld upp á gamlan máta, með hvítum dúkum og þungum hnífapörum.
Ég kíki þarna inn um gluggann þegar ég er í London.
Þar eru ævinlega tveir gamlir menn sem ég er búinn að ákveða að séu þjóninn og yfirþjónninn. Báðir eru í jakkafötum með slaufur, jakki þjónsins er hvítur en föt yfirþjónsins eru svört. Ég veit ekki hvort þeir bíða eftir matargestum eða hvort þeir lifa bara í blekkingunni.
Það skiptir jú máli að halda reisn sinni þótt viðskiptin gangi ekki vel.