Drengir og stúlkur biðu eftir því í gær að fá eiginhandaráritun hjá knattspyrnugoðinu Christiano Ronaldo. Sumir krakkarnir af því hann er svo góður í fótbolta, aðrir af því hann er svo sætur.
Það rifjaðist upp fyrir mér þegar fótboltamaðurinn Martin Peters kom til Íslands um 1970. Hann hefur þá líklega leikið með Tottenham sem mætti ÍBK í Evrópukeppni.
Martin Peters varð stjarna þegar hann, kornungur leikmaður, spilaði með Englendingum í heimsmeistarakeppninni 1966. Hann skoraði meira mark að segja í úrslitaleiknum. Peters, sem var alinn upp hjá West Ham, var einnig með í heimsmeistarakeppninni 1970.
Vinur minn einn úr Vesturbænum hélt mikið upp á Peters. Má jafnvel segja að hann hafi verið átrúnaðargoð hans. Strákurinn lagði á sig að bíða löngum stundum fyrir utan Hótel Sögu þar sem ensku leikmennirnir bjuggu í von um að koma auga á goðið – og fá hjá honum eiginhandaráritun.
Svo kom hann loks út af hótelinu. En þá var hann fúll á svipinn og strunsaði framhjá drengnum án þess að virða hann viðlits og upp í bíl.
Nú fjörutíu árum síðar sárnar honum þetta ennþá.
Ég vona að Ronaldo hafi gefið einhverjum aðdáendum sínum áritun sína.