Friðarverðlaunahafi Nóbels, Liu Xiaobo, er í fangelsi og veit sennilega ekki af því að hann hefur fengið verðlaunin. Liu er afar verðugur verðlaunahafi. Hann afplánar nú ellefu ára fangelsisdóm.
Ætli honum verði sleppt lausum til að taka við verðlaununum?
Liu er meðal annars frægur fyrir að vera einn af hvatamönnum svokallaðrar Stefnuskrár 08, en það er plagg sem var undirritað af 303 menntamönnum og mannréttindabaráttufólki.
Þar eru settar fram kröfur um endurbætur í lýðræðisátt, meðal annars um sjálfstæða dómstóla, aðgreiningu valds, tjáningar- og félagafrelsi, umhverfisvernd og mannréttindi.
Kínverska stjórnin hefur ofsótt marga sem skrifuðu undir Stefnuskrá 08, algjört bann hefur verið við að fjalla um hana í kínverskum fjölmiðlum og einnig hafa stjórnvöld reynt að þurrka út öll merki um hana á internetinu.
Í þessari vídeófrétt Guardian er sagt frá Liu Xiaobo og þessu merka plaggi sem margir telja að marki tímamót í mannréttindabaráttu í Kína.