Það er dálítill vandi í umræðu á Íslandi hversu margir eru æpandi.
Nú erum við að ganga í gegnum fjárlög sem hefur verið vitað lengi að yrðu þau erfiðustu sem um getur. Það verður deilt um margt í þessum fjárlögum. Fyrirfram töldu margir að þau yrðu erfiðasta verkefni ríkisstjórnarinnar.
Nú er til dæmis rifist um stjúkrastofnanir úti á landi.
Fólk á stöðum þar sem þessi niðurskurður kemur sér illa rís upp – kannski eðlilega. Um leið myndast ógurlegur þrýstingur á stjórnmálamenn, ekki síst þá sem sitja í fjárlaganefnd. Þess má geta að í fjárlaganefnd eru einungis tveir þingmenn frá höfuðborgarsvæðinu.
Þetta er vond umræða. Það verður að kynna kosti og galla þessa á þessum tíma samdráttar og niðurskurðar. Stjórnmálamönnum og fjölmiðlum ber skylda til þess að hafa umræðuna á vitrænum nótum.
Það eru vitaskuld margir kostir við að hafa heilbrigðisþjónustu í héraði, sem næst notendunum. En á móti kemur að samgöngur eru miklu betri en áður – og auðveldara að koma fólki á spítala á þéttbýlisstöðum. En á hinn bóginn eiga allir rétt á góðri heilsugæslu – til þess borgum við skatta – hvaða kröfur eigum við að gera til hennar?
Og svo má spyrja í framhaldi af þessu hvaða vit sé í að byggja stórt svokallað hátæknisjúkrahús í Reykjavík þegar verið er að skera alls staðar niður í heilbrigðisþjónustunni – læknar fara úr landi í leit að betri kjörum og lyfjaverð hækkar?