Listamenn og peningar – það er vandræðalegt efni.
Van Gogh seldi aldrei mynd – og dó geðsjúkur og snauður.
Mozart átti í ægilegu skuldabasli.
En Haydn til dæmis vann alltaf hjá Ezterhazy greifunum, hafði það sennilega nokkuð gott – en það hefur kannski ekki alltaf verið jafn gaman að semja tækifærisverk fyrir aðalinn.
Bach var ekki ríkur, en hann átti tuttugu börn.
Halldór Laxness virðist hafa verið dálítið kræfur í því þegar hann var ungur að fá lánaða peninga og gleyma að borga aftur. En hann var líka sviptur listamannalaunum.
Guðbergur Bergsson er eins og ritmunkur – maður horfir á Guðberg og finnst eins og maður sé að sjá nægjusamasta mann í heimi. Ég kíkti einu sinni inn í ískáp hjá Guðbergi. Hann var tómur.
Góð list er annars ekki metin í peningum. Við vitum heldur ekki hvenær og hvar góð list verður til. Sumt sem er hampað á eftir að reynast lítilsvirði – annað nýtur sannmælis í fyllingu tímans.
Í gamla daga var listin borguð að kóngum, greifum og kirkjunni. Svo rann upp tími borgarastéttarinnar og listamenn fengu fé frá auðugu fólki. Í Bandaríkjunum er það enn svo að nokkru leyti – ríkt fólk styrkir listastofnanir, það þykir fínt. Í Sovétríkjunum voru listamenn forréttindafólk sem nutu fríðinda – þ.e.a.s. þeir sem voru ekki drepnir eða sendir í gúlagið.
Stuðningur við ákveðnar greinar lista er almennur í Evrópu núorðið. Við leikhús, óperu, söfn, kvikmyndagerð að einhverju leyti – og svo eru ritlistarstyrkir. Það koma út um 700 bækur á Íslandi á ári. Í kringum þetta er mikil starfsemi, útgáfufyrirtæki, hönnun, prentun, auglýsingagerð, bóksala, bókasöfn – rithöfundurinn fær í raun ekki svo mikið af virðisaukanum.
En á okkar tímum finnst okkur mikilvægt að listamenn séu sjálfstæðir, ekki ofurseldir yfirvaldi sem skammtar þeim lífsafkomuna. Hið frekar ópersónulega styrkjakerfi virkar í raun ágætlega – andstætt til dæmis heiðurslaunum Alþingis þar sem pólitíkusar hafa bein afskipti.
Halldór Laxness fjallar um sjálfstæði listamanna á einstakan hátt í Gerplu – skáld sem yrkja kvæði um kónga sem eru kannski ekkert sérstaklega verðir þess.
W.H. Auden kemur inn á þetta í kvæði sem nefnist The Cave of Making og er augljóslega innblásið af kynnum Audens af norrænum bókmenntum:
Who would, for preference,
be a bard in an oral culture,
obliged at drunken feasts to improvise a eulogy
of some beefy illiterate burner,
giver of rings, or depend for bread on the moods of a
Baroque Prince, expected,
like his dwarf, to amuse? After all, it’s rather a privilege
amid the affluent traffic
to serve this unpopular art which cannot be turned into
background noise for study
or hung as a status trophy by rising executives,
cannot be „done“ like Venice
or abridged like Tolstoy, but stubbornly still insists upon
being read or ignored: our handful
of clients at least can rune.