Í Kiljunni í kvöld förum við austur í Lónssveit og hittum skáldkonuna Kristínu Jónsdóttur. Hún býr í Hlíð í Lóni, en gaf í fyrra út ljóðabókina Bréf til næturinnar, sem inniheldur einstaklega falleg og vel ort kvæði sem flest fjalla um ástina í einni eða annarri mynd. Myndirnar sem Jón Páll Pálsson kvikmyndatökumaður tók fyrir austan síðsumars eru algjör dásemd.
Við fjöllum um nýja þýðingu því fræga verki sem á íslensku hefur heitið Bókin um veginn. Ragnar Baldursson hefur nú íslenskað ritið eftir kínverskum textum, en fyrri þýðingar eru allar gerðar úr öðrum tungumálum. Bókin kemur senn út í flokki Lærdómsrita Bókmenntafélagsins, í tvítyngdri útgáfu, og nefnist Ferlið og dyggðin. Bókin er með formála og útskýringum eftir Ragnar.
Við heimsækjum Þórarin Eldjárn í þeim hluta þáttarins sem nefnist Úr bókahillunni. Þórarinn sýnir okkur nokkrar bækur sem hann hefur dálæti á.
Illugi Jökulsson og Þorgerður E. Sigurðardóttir ræða um skáldsögurnar Arsenikturninn eftir Anne B. Ragde og Sögu eftirlifenda eftir Emil Hjörvar Petersen, en einnig spjöllum við um hverjir séu líklegir til að hljóta Nóbelsverðlaun í bókmenntum sem verða veitt á fimmtudag.
En Bragi talar um Jón Dúason.