Það er sagt að sígaunar velji sinn lífsstíl, en svo einfalt er það auðvitað ekki. Ég er ekki viss um að börnin myndu endilega velja líf sem felst í flakki, sníkjum og betli, eins og margir sígaunar stunda.
Oft er raunalegt að fylgjast með sígaunabörnum í erlendum borgum. Þau þurfa að þvælast um götur og torg heilu dagana. Maður spyr sig hvort þessi börn læri til dæmis að lesa eða skrifa. Sjaldnast sér maður sígaunakarlana; það eru þeir sem hirða ávinninginn af betlinu og snöpunum.
Fyrir fáum dögum vorum við í Tyrklandi. Á götuhorni var uppákoma sem vakti athygli okkar. Þar var ung sígaunastúlka með kornabarn sem gat varla verið meira en nokkurra stunda gamalt. Hópur af tyrkneskum konum var að ræða við hana til að reyna að fá hana til fara og veita barninu lágmarksaðhlynningu.
Nú berast fréttir um að Sarkozy Frakklandsforseti vilji koma sígaunum úr landi. Því miður eru sígaunar óvelkomnir á flestum stöðum. Sums staðar, eins og til dæmis í Tékklandi, hafa þeir verið ofsóttir hin síðari ár. Það er ömurlegt að vita, sérstaklega í ljósi sögunnar. Á Ítalíu hefur líka miklu hatri og tortryggni verið beint að sígaunum – fræg er mynd sem tekin var fyrir tveimur árum á strönd nálægt Napólí þar sem fólk í sólbaði lætur það ekkert trufla sig þótt tvö nýdrukknuð sígaunabörn liggi undir ábreiðu á ströndinni.