Ragnar Önundarson er einn af þeim sem varaði við hruni íslenska fjármálakerfisins. Því er hlustað á það sem hann segir. Ragnar, sem nú er varaformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, skrifar grein um Magmamálið í nýútkomið Viðskiptablað og gagnrýnir tvöfalt siðgæði sem einkenni umræðu um erlenda fjárfestingu í landinu. Inntak greinarinnar hljómar svo í endursögn blaðamannsins Magnúsar Halldórssonar:
„Er sjálfsagt að við fáum að fjárfesta erlendis að vild en bönnum öðrum þjóðum að fjárfesta hjá okkur? Varla. Er sjálfgefið að Evrópubúar séu betri erlendir fjár festar en aðrir? Varla. Eru Kanadamenn ekki ágætir líka? Jú, ekki verður annað séð.“
Þetta segir Ragnar Önundarson, varaformaður stjórnar Líf eyrissjóðs verzlunarmanna, í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu í dag. Hann gagnrýnir harðlega það „tvöfalda siðgæði“ sem ein kennt hefur umræðu um erlenda fjárfestingu í landinu. Hann segir Íslendinga eiga um 550 milljarða króna í erlendum eignum sem m.a. séu bundnir í auðlindum annarra þjóða. „Fjárfest er í öllum atvinnugreinum, þ.m.t. auðlindum annarra þjóða. Öllum finnst okkur þetta sjálfsagt og eðlilegt, rétt eins og við fáum aðgengi að vinnumörkuðum og háskólum erlendis, svo dæmi séu tekin. Þessi eign átti sinn þátt í að verja lífeyrissjóðina í hruninu og um leið heildarstöðu landsins gagnvart umheiminum og þar með sjálft sjálfstæði þess.“
Ragnar segir orkugeirann vera áhugaverðan kost fyrir lífeyrissjóðina. Skynsamlegt sé að þeir eignist hlut í íslenskum orkufyrirtækjum. Hann segir fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna fara saman við rekstur orkufyrirtækja þar sem horft sé til langs tíma. Hann segir fara vel á því að lífeyrissjóðir eignist í Landsvirkjun.
„Fjárfestingar í orku eru langtímafjárfestingar og lífeyrissjóðir eru langtímafjárfestar. Þetta passar saman. Orkuframleiðslan er líka stöðug, sjóðfélagar kunna einmitt að meta stöðugleika lífeyris síns til langs tíma. Orkufyrirtækin tengjast útflutningsiðnaði, við þurfum augljóslega að afla okkur aukinna erlendra tekna á næstu árum til að borga af okkar miklu erlendu skuldum.“
„Til greina kæmi að skuldbinda sjóðina á móti, t.d. til að bjóða ríkinu forkaupsrétt. Vegna eðlis starfseminnar gætu sjóðirnir greitt fyrir eignarhluti sína með erlendum gjaldeyri. Vantar ríkið nokkuð peninga núna?“ spyr Ragnar.
Ragnar segir umræðuna um kanadíska fyrirtækið Magma Energy, sem keypti HS Orku fyrir skemmstu, vera einkennilega. Hann segir RÚV drífa málið áfram með einkennilegum fréttaflutningi. „Umræðunni er stillt upp sem andstöðu við Magma Energy. Það er vinstri pólitík ríkisfjölmiðlanna. Andstaða VG er í raun við að útlendingar fái að fjárfesta í auðlindum landsins. Óánægja og ótti flokksmanna með að þurfa að bera ábyrgð á landsstjórninni kraumar undir. Magma og forsvarsmönnum þess er stillt upp sem eins konar andstæðingum okkar. Það er rangt og skaðlegt. Ross Beaty og Ásgeir Margeirsson eru menn með áfallalausan feril að baki og þeir eru kunn áttumenn á sínu sviði,“ segir Ragnar.
Hann nefnir einnig að mikil þörf sé á því að auka erlendar fjárfestingar. Meiri þörf sé á því að lögbinda lágmark á erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna fremur en hámark upp að 50%. Þar spili inn í að krónan sé einn mesti áhættugjaldmiðill heimsins.