Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra segir tímabært að huga að því að endurreisa Lyfjaverslun Ríkisins. Hún var einkavædd um miðjan síðasta áratug. Ef þetta getur skilað lægra lyfjaverði þá er sjálfsagt að gera það. Einkavæðing á ekki að vera kredda. Og einkavæðing á fákeppnis – og einokunarmarkaði getur verið stórskaðleg eins og dæmin sanna.
Mestöll einkavæðingarsaga Íslands er raunaleg, allt frá því að Bæjarútgerð Reykjavíkur var sett í hendur vildarvina á níunda áratugnum. Svo var það hin alræmda sala á SR-mjöli, allt vesenið með einkavæðingu Landsímans og loks bankarnir – við vitum hvernig fór um sjóferð þá eftir að þeir voru settir í hendurnar á klíkubræðrum, handgengnum stjórnarflokkum þess tíma. Að ógleymdum síðasta kaflanum – HS Orku. Gunnar Axel skrifaði ágætt yfirlit um það mál í gær.
Sverrir Hermannsson fjallar um hluta þess máls, söluna á eignarhluta Landsbankans í VÍS, í grein í Fréttablaðinu í dag. Greinin er svona í heild sinni. Maður spyr sig – hvað er þetta annað en þjófnaður?
„Hinn 17. nóvember 2004 birti höfundur grein, þar sem stóð m.a.: „Í Morgunblaðinu 27. okt. sl. beindi undirritaður þeirri fyrirspurn til fjármálaráðherra hvert hefði verið söluverð eignarhluta Landsbanka Íslands í Vátryggingafélagi Íslands, sem seldur var í aðdrögum að sölu bankans. Ráðherrann svaraði strax daginn eftir og kvað sér ljúft að upplýsa að hlutur ríkisins í Landsbankanum hefði ekki heyrt undir fjármálaráðherra heldur viðskiptaráðherra. Í lok svarsins segir ráðherra: ,,Ég hefi ekki upplýsingar um umrætt söluverð en tel víst að það hafi verið í samræmi við markaðsverð þessara bréfa á þeim tíma.“
Ráðherrann „telur víst“ en veit ekki um milljarðasölu á eign Landsbankans í VÍS, þótt bankinn væri hér um bil allur í eigu ríkisins.
Eins og fram kom í fyrirspurn greinarhöfundar, þurfti hann engar upplýsingar um að salan var á hendi bankamálaráðherra Framsóknar. Né heldur hverjir sáu um söluna fyrir hönd ráðherrans. Þaðan af síður hverjir keyptu. Hann var aðeins að spyrja gæzlumann landsins kassa um hvað hefði komið í þann sjóð við fyrrgreinda sölu.
Staðreyndir málsins eru þessar: Bankamálaráðherrann bar ábyrgð á sölunni. Um söluna önnuðust bankaráðsmennirnir Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og sérleg senditík Finns Ingólfssonar, Helgi Guðmundsson. Kaupandi var hinn svokallaði S-hópur ,,sem á rætur sínar að rekja til Sambands íslenzkra samvinnufélaga (SÍS)“, sbr. Morgunblaðið 26. okt. sl. bls. 13, þar sem fyrirsögnin hljóðar: ,,VÍS yfirtekið og afskráð“.“
Spurningunni, sem fjármálaráðherra kunni ekki svar við, hefir verið svarað fyrir margt löngu. S-hópurinn keypti VÍS-bréfin á 6,8 milljarða. Tæpum fimm árum síðar seldi hópurinn bréfin fyrir 31,5 milljarða króna.
Það er ekki von að fjármálaráðherrann vildi vita neitt um þessa frægu sölu á ríkiseign.
Þetta er eitt af dæmunum um hvernig framsóknarmenn mökuðu krókinn undir forystu Halldórs Ásgrímssonar með vitund og vilja Sjálfstæðisflokksins.“