Gúlagsafnið í Moskvu lætur ekki mikið yfir sér. Maður gengur inn í port við Petrovkagötu. Þar er gaddavír og varðturn sem minna á þessar alræmdu þrælkunarbúðir og uppi hanga myndir af mönnum sem létu lifið í ofsóknum: Tukashevski hershöfðingja, leikhúsmanninum Mayerholdt, leikaranum Mikhoels og Búkharín sem eitt sinn var sagður eftirlæti flokksins.
Safnið er ekki vel kynnt meðal Rússa, það er heldur ekki stórt, nokkur herbergi á tveimur hæðum – það eru aðallega ferðamenn sem sækja það. Safnverðirnir eru gamlar konur sem eru tilbúnar að segja frá, konan sem fylgir okkur um safnið talar blöndu af ensku og þýsku. Sjálf dvaldi hún í Gúlaginu.
Það er heldur ekki mikið fjölmenni þarna, meðan við erum þarna erum við einu gestirnir.
Þarna eru kort, gamlir búningar fanga, áhöld úr fangabúðunum, ljósmyndir af föngum, fangavörðum og fangabúðastjórum – mögnuðust eru þó listaverk sem hafa verið máluð eða teiknuð af föngum úr Gúlaginu.