fbpx
Mánudagur 21.júlí 2025
Eyjan

Fjölnismaður í Grikklandi og Tyrklandi

Egill Helgason
Þriðjudaginn 20. júlí 2010 22:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég er ekki nógu vel að mér um sögu Fjölnismannsins Tómasar Sæmundssonar til að vita að hann er einna fyrstur Íslendinga til að fara um slóðir í Grikklandi og Tyrklandi  sem ég hef farið um. Ólafur Gíslason bendir á þetta í athugasemd við grein sem ég skrifaði um sögu Tyrkja og Grikkja á Anatólíuskaga. Ég kann Ólafi þökk fyrir þessi skemmtilegu skrif og leyfi mér að birta þau hérna:

— — —

„Sjálfur hef ég ferðast um grískar og tyrkneskar slóðir undanfarin ár og fundið hvað þessar þjóðir eiga mun meira sameiginlegt en það sem sundrar þeim – þrátt fyrir trúarbrögðin.

Það voru Sèvres-samningarnir um uppskiptingu Ottomanaveldisins undir yfirráð sigurvegaranna í fyrri heimsstyrjöldinni sem kölluðu á þá styrjöld sem Tyrkir kalla sitt þjóðfrelsisstríð, og lyktaði með gagnkvæmum „þjóðernishreinsunum“ Grikkja og Tyrkja. Þeir samningar voru óhæfuverk, sem skildu eftir sig langan slóða hörmunga sem ekki sér enn fyrir endann á, samanber Palestínuvandann (Bretar fengu Palestínu samkvæmt þessum samningum).

En af því hér var minnst á íslenska þjóðernishyggju og Fjölnismenn, þá er ekki úr vegi að minnast á að einn Fjölnismanna, Tómas Sæmundsson, var líklega fyrstur Íslendinga til að koma til Smyrnu – sem nú heitir Izmír.

Tómas fór í siglingu frá Napoli sumarið 1834 sem stóð frá 16. apríl til 9. ágúst. Af bréfum hans má lesa að áfangastaðir siglingarinnar voru þessir:
Messina, Catania, Siracusa, Corfu, Patras, Korintuflói, Delfi, Pyrgas, Olympia, Navarino, Naflion, Mykena, Argos, Hydra, Poros, Ægina, Istmos-eiðið, Kórinta, Aþena, Smyrna, Mytilen-eyja, Tenedos-eyja, Trója, Hellusund, Marmarahafið, Konstantinópel, Zanthe-eyja, Siracusa, Agrigento, Palermo, Napoli.
Því miður náði hann ekki að segja ferðasöguna í Ferðabók sinni, en hann minnist hins vegar á ferðina í nokkrum sendibréfum til föður síns og vina. Um siglinguna segir Tómas í bréfi til föður síns:

„Um borð voru fleiri kongar, prinsar og konunglegar persónur, lengri eða styttri part af reisunni. Hér mátti meðal hálfs annaðs hundraðs manna sjá fólk af öllum stöndum og heyra undir eins töluð ein 20 tungumál. Þvílík reisa hefir því víst aldrei verið gerð, og hér var svo mikið allareiðu á skipinu að sjá og læra að það borgaði ómakið að gera hana. Þar að auki eru löndin, sem við nú sáum, eins nafnfræg í veraldarsögunni (svo sem heila Grikkland, hvers inndælasti staður er Aþenuborg), eins og hin önnur fyrir sína fögru náttúru (svo sem höfuðstaður Tyrkjalanda: Konstantínópel, þar sem við vorum í 15 daga. Hann er miklu fegurri en Neapel og svoleiðis fegurst af öllum stöðum sem til eru).“

YPPO01

Aþena á öndverðri 19. öld.

Af þeim stöðum sem Tómas sá standa Aþena og Konstantínópel upp úr í minningu hans, en viðdvölin var 5 dagar í Aþenu og 15 dagar í Konstantínópel. Um þessar borgir segir hann í bréfi til vinar:

„Allir vita, hve mikið þessi bær hefir gert fyrir heiminn, enda á enginn bær, hvað leguna snertir, við betri kjör að búa. ..Í Róm –á Foro Romano – verður að grafa 20 fet á jörð ofan til þess að geta þar staðið á „klassískri grund“, en í Aþenuborg stendur enn óhreyfður kletturinn, þar sem Sókrates talaði gegn Alkibiadesi, og Períkles ávarpaði lýðinn, og á Akropolis hefði mátt líta listaverk Phídiasar, eins og hefðu þau verið gjörð fyrir 10 árum, ef siðleysi manna hefði ekki á síðustu árum fengið að eyðileggja þau – þó, sem betur fer, ekki nema að hálfu leyti. Að Rómaborg einni undanskilinni hefir mér hvergi fundizt tíminn líða jafnfljótt og þá 5 daga, sem ég dvaldist í Aþenuborg. Það sem Aþenuborg hefur fram yfir Róm er sjálf náttúran og rústirnar, sem þar gefur að líta; en hvað snertir gripasafnið í Aþenuborg, bæinn sjálfan og íbúana, getur ekki verið um neinn samanburð að ræða. “

Rétt eins og borgarbragurinn í Aþenu bar sögunni sorglegt vitni, þá gerðist hið þveröfuga við komuna til Konstantínópel, þar sem Tómas verður dolfallinn þegar við fyrstu sýn borgarinnar:

„Alt, sem Ölenschlæger eða hvaða skáld annað sem er eða málarar hafa nokkuru sinni sagt eða snortið með tilfinningar vorar, verður áhrifalaust í samanburði við það mál sem náttúran sjálf talar hér, og við þær tilfinningar sem hún vekur í sálu þess manns, er fer framhjá keisara-höllinni (serailinu) [á aðra hönd] og Skútarí [á hina], og í fyrsta sinn sér Galata blasa við sér með Sæviðarsund (Bosporus) hægra megin og höfnina [„Gullhornið“ svonefnt, sem norrænir menn til forna kölluðu Stólpasund] vinstra megin.“

Þegar hann kemur til Smyrna dregur hann upp eftirfarandi mynd í bréfi til vinar:

„Mér fannst, sannast talað, ég vera kominn í annan heim, þegar ég kom til Tyrkja, eftir að hafa verið meðal Grikkja – þó allhægt sé að lynda við Grikkina sem hér búa…Hér í Smyrna var komið í austurlenzkan bæ – allt austurlenzkt nema skipin í höfninni…aðkomnum frá hinum og þessum verslunarborgum í Norðurálfunni. Hér gaf að líta miklar úlfalda og múlasnalestir. Hér mátti sjá þræla, sem í stórhópum voru reknir til sölutorgsins, þar sem þá skyldi selja. Konur allar voru með gula skó á fótum og slæðu fyrir andliti og í fylgd með þeim var fjöldi ambátta og geldinga.“

Sem sannur mótmælandi er Tómas fullur tortryggni gagnvart pápisku og grískum rétttrúnaði, en fer engum illum orðum um múslima, þvert á móti segir hann í bréfi til föður síns: „Grikkir eru slæmir menn en Tyrkir góðir.“

Þessar heimildir eru flestar úr Ævisögu Tómasar og Bréfasafni hans, sem Jón Helgason biskup gaf út í byrjun síðustu aldar.“

d_2007_50tbl2007_bh_blogg_tomas_saemundssonTómas Sæmundsson varð aðeins 33 ára. Hann ferðaðist um Evrópu 1832-34 og skráði ferðasögu sína. Á þeim tíma fóru fáir Íslendingar í slíkar langferðir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Dineout og Heimar umbreyta upplifun gesta í mathöllum – ein greiðsla, margir staðir

Dineout og Heimar umbreyta upplifun gesta í mathöllum – ein greiðsla, margir staðir
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Hvenær tekur maður þátt í málþófi og hvenær ekki?

Orðið á götunni: Hvenær tekur maður þátt í málþófi og hvenær ekki?