Oft fara hlutirnir öðruvísi en maður heldur, það er erfitt að túlka atburði þegar þeir verða.
Allir töldu að árásirnar á Tvíburaturnana 11. september 2001 væru algjör tímamótaatburður í sögunni. Að upp frá því yrði ekkert eins og áður var.
Þetta reyndist einfaldlega ekki rétt. Vissulega var þetta mikill atburður, en hann gjörbreytti ekki heiminum.
Það varð ekkert stríð milli siðmenninga. Hinn öfgafulli og herskái íslamismi reyndist ekki hafa ýkja mikinn styrk og flestir múslimar vilja ekkert af honum vita.
Og síðustu tvö árin hafa Vesturlönd verið með allan hugann við efnahagskreppu en ekki hin mislukkuðu stríð í Afganistan og Írak.
Ég hef verið að kíkja í bækur sem voru skrifaðar undir áhrifum frá þessum atburðum. Höfundunum er oft mikið niðri fyrir. En mikið af þessum skrifum er þegar orðið býsna úrelt.