Í alþjóðaútgáfu Der Spiegel má lesa stóra grein um að bankar og fjármálastofnanir séu aftur farnar að hegða sér eins og ekkert hafi í skorist, spilavítiskapítalisminn ráði ferðinni. Stjórnmálamenn hafa uppi stór orð um að koma böndum yfir bankana, en efndir hafa ekki fylgt orðum. Spiegel segir að síðasta tækifærið verði á fundi G20 sem er haldinn verður í Kanada síðar í þessari viku – þar þurfi ráðamenn heimsins að temja fjármálaskrímslið.
Spiegel birtir lista með fimm atriðum sem nauðsynlegt sé að koma í framkvæmd:
1. Að endurvekja lög eins og Glass-Steagall þar sem skilið er á milli starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarstarfsemi.
2. Hærra eiginfjárhlutfall fjármálastofnana.
3. Hert eftirlit með gæðum fjármálaafurða.
4. Hert eftirlit með vogunarsjóðum og að um þá gildi sömu reglur og banka, það er engin ástæða til að spákaupmenn njóti forréttinda.
5. Að koma stjórn á matsfyrirtækin sem hafa brugðist hræðilega en hafa enn mikil og nánast óskoruð völd.
Spegel segir að auðvitað muni bankar berjast gegn þessu með kjafti og klóm. Meðal þess sem er haldið fram er að þetta muni kosta störf, en það sé álíka traustvekjandi og þegar þeir sem stunda mengandi starfsemi mótmæli reglum um umhverfisvernd.