fbpx
Mánudagur 21.júlí 2025
Eyjan

Vændiskaup og gapastokkar

Egill Helgason
Föstudaginn 18. júní 2010 19:39

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gildi eru ný lög á Íslandi um að það sé refsivert að kaupa vændi.

Þetta er umdeilt mál, víða um heim er þetta ekki talið afbrot. Ég man að fyrir nokkrum árum var ég með tvo leiðtoga sósíalista á Norðurlöndum í þætti hjá mér. Annars vegar Kristinu Halvorsen, leiðtoga Sosialistisk venstreparti í Noregi, og hins vegar Holger Nilsen sem þá var formaður Socialistisk folkeparti í Danmörku.

Þá var sænska leiðin svokölluð mjög til umræðu, semsagt að vændiskaup yrðu gerð refsiverð. Kristín sagðist vera fylgjandi henni – hún var síðar tekin upp í Noregi þar sem hún hefur verið í ríkisstjórn – en Holger  fann þessu allt til foráttu, taldi meðal annars að þetta myndi reka vændisstarfsemina undir yfirborðið þar sem umhverfið væri enn hættulegra. Hann taldi að frekar ætti að veita vændiskonum meiri vernd.

Það sem var mest áberandi í þessu var ekki meiningarmunurinn heldur menningarmunurinn – Dananum fannst þetta bókstaflega skrítin hugmynd, norska konan stökk á hana. Norðmenn hafa löngum verið mjög strangir í siðferðisefnum, Danir sverja sig í ætt við Hollendinga og Þjóðverja þar sem vændi hefur lengi verið fyrir opnum tjöldum.

Í raun er þetta flókið álitaefni. Nú er gengið út frá því að kaupandinn, yfirleitt karlmaður,  sé að níðast á seljandanum, konunni. Á móti er hægt að segja að ekki eigi að refsa fyrir ef þarna eru á ferðinni samskipti tveggja fullveðja einstaklinga með samþykki beggja. Er það þá ofbeldi? Víða hefur venjan verið sú að reyna að taka á dólgum, þeim sem hagnast á vændi annarra. Slíkt getur tekið á sig mjög ógeðfelldar myndir, með mansali og þá erum við að ræða um alvöru ofbeldi og frelsissviptingu.

Vændi er auðvitað bæði sorglegt og ógeðfellt. Konur geta þénað peninga á því, en um leið hlýtur það að vera sálarmyrðandi. En það er annað sem erkki nefnt í þessu sambandi – það er niðurlæging karlmanna sem leita til vændiskvenna, því ekki eru þeir allir fantar og fúlmenni. Hlutskipti sumra er einfaldlega að geta ekki ná sér í konu af einhverjum ástæðum,  til dæmis vegna feimni eða útlits. Framferði þeirra kann að vera fyrirlitlegt á sinn hátt, en það felur líka í sér mikla sjálfsniðurlægingu.

Hér á landi eru uppi mjög púritönsk viðhorf í þessu efni.  Það er talað um vændiskaup sem kynferðisglæp; þau eru það kannski samkvæmt þeirri skilgreiningu sem nú er stuðst við, en svo er alls ekki í mörgum nágrannaríkjum sem eru trauðla á neinu villimannastigi. Þess verður samt að gæta að vændiskaup eru ekki sambærilegt afbrot og nauðgun eða barnaníð.

Það á enn eftir að dæma hóp manna sem gerðist sekur um að kaupa vændi af konu frá Afríku sem hefur verið í fréttum á Íslandi. Þá mun væntanlega reyna á hvað dómarar telja hæfilega refsingu fyrir brotið. Á sama tíma er uppi tilhneiging til að taka þessa menn og hálfpartinn hengja þá upp í gapastokk, öðrum til viðvörunar og kannski líka vegna heiftar sem þetta mál virðist vekja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sigmar Guðmundsson: Fundarslit Hildar Sverrisdóttur settu aukna hörku í þinglokin

Sigmar Guðmundsson: Fundarslit Hildar Sverrisdóttur settu aukna hörku í þinglokin
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Dineout og Heimar umbreyta upplifun gesta í mathöllum – ein greiðsla, margir staðir

Dineout og Heimar umbreyta upplifun gesta í mathöllum – ein greiðsla, margir staðir
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Áslaug Arna aftur komin á laun þrátt fyrir námsleyfi – Fær 3,1 milljónir þar til varamaður tekur við

Áslaug Arna aftur komin á laun þrátt fyrir námsleyfi – Fær 3,1 milljónir þar til varamaður tekur við
Eyjan
Fyrir 1 viku

710 klukkustundir og 10 mínútur af þingfundum á árinu en bara 35 frumvörp af 131 samþykkt

710 klukkustundir og 10 mínútur af þingfundum á árinu en bara 35 frumvörp af 131 samþykkt
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þingfundur hefst kl. 10 – Þrjú mál á dagskrá fyrir sumarfrí

Þingfundur hefst kl. 10 – Þrjú mál á dagskrá fyrir sumarfrí
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Til varnar Íslandssögu Jónasar frá Hriflu

Björn Jón skrifar: Til varnar Íslandssögu Jónasar frá Hriflu