fbpx
Þriðjudagur 22.júlí 2025
Eyjan

Auðlindir, eignarhald og efnahagur

Egill Helgason
Þriðjudaginn 8. júní 2010 08:37

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ágúst Valfells  verkfræðingur er höfundur þessarar greinar.

— — —

Inngangsorð

Sumar þjóðir eru ríkar af náttúruauðæfum en of fátækar af þekkingu til að fullnýta þær. Þessar þjóðir búa yfirleitt við fátækt, jafnvel þótt þær fái greitt auðlindagjald frá erlendum fyrirtækjum sem skapa verðmæti úr auðlindunum. Aðrar þjóðir hafa gnótt þekkingar og nota hana til að breyta innfluttum hráefnum í verðmætar vörur. Þær eru yfirleitt efnaðar. Best settar eru þó þær þjóðir sem bæði eiga auðlindir og búa yfir þekkingu til að nýta þær vel.

Lengst af voru Íslendingar í hópi fátæku þjóðanna. Við lifðum þá fyrst og fremst á þeirri auðlind sem fólst í landinu sjálfu og afrakstri þess með þeim aðferðum sem frumstæð tækni og orka manna og dýra megnuðu. Til langtíma litið var þetta ekki sjálfbær þróun, því að í aldanna rás minnkaði gróðurlendið úr 40.000 ferkílómetrum niður í 20.000. Landið bar heldur ekki meir en u.þ.b. 60.000 manns við þessar aðstæður.

Þegar við fórum að nýta auðlindir hafsins í vaxandi mæli batnaði efnahagur þjóðarinnar stórlega og þá fyrst og fremst eftir að vélvæðing komst á til lands og sjávar. Aukin þekking og tæknivæðing ásamt betri skipulagningu, bæði í stjórnsýslu og viðskiptum bættu um betur, að ógleymdum þeim þætti er síst skyldi vanmeta, en það var aukið frjálsræði.  Við þessar aðstæður gátu a.m.k. 250.000 manns búið í landinu við miklu betri lífsskilyrði en á öldum áður.

Samt kom að því að við gerðum okkur grein fyrir að það mátti ofbjóða auðsæld hafsins, einkum með stórtækum veiðitækjum nútímans og ekki væri endalaust hægt að sækja aukinn hagvöxt í greipar Ægis. Kvótakerfið var sett á og eignarhald kvótans, og nýting  auðlindarinnar, bundin við íslenska aðila. Almennt er viðurkennt að ekki er endalaust hægt að byggja betri efnahagsleg lífskjör á auðlindunum tveimur, landinu og hafinu, jafnvel með þeirri tæknivæðingu og þekkingu sem við nú höfum.

Á fyrri hluta síðustu aldar fóru menn hér á landi smátt og smátt að gera sér grein fyrir þeirri auðlind sem fólst í fallvötnum og hita í iðrum jarðar. Rafvæðing hófst í kring um 1920 og lagning hitaveitu u.þ.b. tuttugu árum síðar. Þó að ýmsir hefðu þegar snemma á öldinni gert sér grein fyrir að breyta mætti orku fallvatnana í verðmæti, í formi vöru er krefðist mikillar orku í framleiðslu, var það ekki fyrr en á sjötta og sjöunda áratugnum sem að þessar hugmyndir komust í framkvæmd. Í meir en þúsund ár frá landnámi hafði Þjórsá runnið óáreytt til sjávar en nú var fallorku hennar breytt í útflutningsverðmæti. Síðan hafa fleiri virkjanir og verksmiðjur bæst við, síðast Kárahnjúkavirkjun og álver Alcoa. Nú búa rúmlega 300.000 manns í landinu við almennt betri lífskjör en nokkru sinni fyrr. Þó hefur efnahagshrunið sett strik í reikninginn, vonandi tímabundið samt. Þar sem umræða um orkumál hefur verið í brennidepli undanfarið mun þessi grein einkum snúast um síðastnefndu auðlind okkar, orkuauðlindina.

Staðan nú

Jafnframt því sem innlendar orkulindir leggja okkur það mikla orku til ljóss, yls og almenns iðnaðar, að við hefðum vart efni á að flytja inn kol og olíu til jafngildis við það, gerum við okkur grein fyrir því að orkuauðlindin er sú náttúruauðlind sem enn má nýta til aukins hagvaxtar, annaðhvort til að framfleyta stærri fólksfjölda í landinu við svipuð lífskjör og við höfum nú, eða svipuðum fólksfjölda við enn betri lífskjör.

Nú er það svo, að til að byrja með eru u. þ. b. níutíu prósent af kostnaði við framleiðslu rafmagns úr vatnsafli fólgin í vöxtum og afborgunum af fjárfestingu vegna viðkomandi virkjunar. Á meðan verið er að afskrifa kostnaðinn felast tekjur þess aðila er á virkjunina í því að skuldlaus eignaraðild hans fer vaxandi uns hann á hana að fullu. Eftir það malar virkjunin eiganda sínum gull, eða þá að lækka má orkuverð, nema hvortveggja sé. Því er það mikilvægt að ef eigendur orkulindarinnar vilja njóta góðs af, að þeir eigi jafnframt virkjunina þar sem aðal verðmætasköpunin á orkusöluferlinum á sér stað.

Um jarðvarmavirkjanir gildir svipað, nema þar er kostnaður vaxta og afskrifta nær því að vera áttatíu prósent. Enn má bæta því við að ef jarðvarmi er nýttur til rafmagnsframleiðslu eingöngu, nýtist almennt ekki nema u.þ.b. fimmtán prósent varmaorkunnar til þeirra nota. Þetta kemur að vísu ekki að sök ef jarðvarmalindin er óendanleg en ekki má gleyma því að hægt er að ganga á varmaforða bergsins hraðar en náttúran endurnýjar hann. Því er það allt fundið fé ef hægt er að nota afgangsvarmann frá raforkuframleiðsunni til annarra nota svo sem hitaveitu, efnaiðnaðar og ýmis annars.

Sem stendur fara um sjötíu og fimm prósent af rafmagnsframleiðslu á Íslandi til stóriðju og um það bil nítján prósent til almennra nota. Afgangurinn eru töp í dreifikerfinu o.fl. Stórar raforkuvirkjanir hafa lægri framleiðslukostnað en smáar og því er sá kostnaður lægri hér á landi en hann væri ef einungis hefði verið virkjað í smærri þrepum til að fullnægja þörf almenns markaðar. Þrátt fyrir að hærri dreifikostnaður svo og aukakostnaður vegna ójafnari notkunnar en hjá stóriðju, að ógleymdum sköttum bætist ofan á verðið til almennings, nýtur hinn almenni notandi hér á landi lægra orkuverðs en gerist víða annars staðar.

Miðað við nýuppgefið meðalverð raforku til stóriðju 2,5 bandríkjasent á kílówattstund (25 mils) og árlega notkun stóriðju á nálega 13 milljörðum kílówattstunda (13.000 Gigawattstundir), má sjá að brúttótekjur af þeirri sölu eru 325 milljónir bandaríkjadala eða um 40 milljarðir kr. á ári.

Hvers ber að gæta?

Eins og áður greinir, felst aðalverðmæti orku í vinnslunni sjálfri þegar vatnsafli og jarðvarma er breytt í rafmagn. Ef eigandi orkulindarinnar er annar en eigandi orkuversins og vilji eigandi orkulindarinnar hagnast jafnmikið á henni og ef hann annaðist vinnsluna sjálfur, yrði sá að setja á auðlindagjald sem væri það hátt, að raforkan yrði ef til vill illseljanleg. Í stuttu máli: Það borgar sig best fyrir eiganda orkulindarinnar að annast vinnslu úr henni sjálfur. Venjulega er fjárfesting í vatnsvirkjunum afskrifuð á 40 til 60 árum. Eftir þann tíma er einungis um viðhalds- og annan rekstrarkostnað að ræða en virkjunin sjálf endist miklu lengur.

Að sjálfsögðu afskrifast endurnýjanleg orkulind alls ekki. Orkulindin er jafnverðmæt að loknu afskriftartímabili umræddrar fjárfestingar og upphaflega var. Um jarðvarmavirkjanir gildir svipað nema að afskriftartíminn er venjulega um 20 ár og hægt er að ofnýta orkulindina þannig að á hana sé gengið og verðmæti hennar rýrni. Sé hún hvíld gæti tekið hálfa öld eða meir fyrir náttúruna að endurhlaða varmaforðann.

Að öllu ofangreindu álítur greinarhöfundur að það sé mjög óviturlegt að leigja út nýtingarrétt á orkulindum til lengri tíma en samsvarar eðlilegum afskriftartíma fjárfestingar sem fer í að nýta þær. Þetta gildi jafnvel þó að auðlindagjald sé greitt. Þá má og hugsa sér, að ef nýtingarréttur orkulindar sé leigður út, þá eignist eigandi orkulindarinnar virkjunina þegar búið er að afskrifa fjárfestinguna sem í hana fór með eðlilegum hagnaði þess sem fjárfesti. Annar möguleiki er að haga auðlindagjaldinu þannig að það fari hækkandi samtímis því sem fjárfestingin afskrifast.

Tvennt ber að hafa enn í huga. Það fyrra er að við viljum ekki verða of háð einni framleiðslugrein, hvort sem um fisk eða ál er að ræða, og rétt er að leita margra leiða til að nota orkuna til að auka fjölbreytni í efnahag landsins.

Hitt atriðað er að vegna hugsanlegs olíuskorts í framtíðinni. Ef við viljum framleiða eldsneyti þá, sem samsvarar núverandi innflutningi, mun þurfa að minnsta kosti 600 til 700 Megawatta virkjun til að leggja til raforku til framleiðslunnar. (Þetta samsvarar einni Kárahnjúkavirkjun.) Það fer eftir rafvæðingu bílaflotans þá, hversu stór virkjunin þarf að vera. Rétt er að eiga þennan virkjunarmöguleika til vara, ef á þarf að halda.

Lokaorð

Íslendingar vilja ekki að hagnaðurinn af útgerðarfyrirtækjunum fari úr landi. Orkuauðlindirnar eru trúlega ekki minna virði en sjávarauðlindin. Nú er það svo, að það virðist sem arðinum af þeim sjö prósentum af raforku landsins sem HS Orka framleiðir, sé þegar ráðstafað til erlends fyrirtækis. Landsmenn munu því verða af verulegum hlut þeirra tekna sem sala þeirrar raforku til stóriðju skilar. Að auki mun ráðstöfun hagnaður af sölu raforku og hita HS orku til almennings vera í höndum erlenda fyrirtækisins.

Mjög brýnt er að móta einhverja nýta stefnu í orkumálum. Ella gæti svo farið að nýtingaréttur orkuauðlindanna yrði að minnstu leiti í höndum Íslendinga. Væri þá t.d. til lítils að framleiða eldsneyti í stað þess að flytja það inn, ef arðurinn af orkuframleiðslunni sem til þyrfti færi til erlendra fyrirtækja hvort eð væri.

Núverandi kynslóð hefur stuðlað að myndun stórs skuldabagga fyrir þær næstu. Við skulum hafa forsjá til þess að rýra ekki tekjumöguleika þeirra líka.

Ágúst Valfells

Höfundur er verkfræðingur sem unnið hefur að orkumálum alla sína starfsævi, bæði austan hafs og vestan

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Hvenær tekur maður þátt í málþófi og hvenær ekki?

Orðið á götunni: Hvenær tekur maður þátt í málþófi og hvenær ekki?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Vaka stýrir COLLAB

Vaka stýrir COLLAB
Eyjan
Fyrir 1 viku

Áslaug Arna aftur komin á laun þrátt fyrir námsleyfi – Fær 3,1 milljónir þar til varamaður tekur við

Áslaug Arna aftur komin á laun þrátt fyrir námsleyfi – Fær 3,1 milljónir þar til varamaður tekur við
Eyjan
Fyrir 1 viku

710 klukkustundir og 10 mínútur af þingfundum á árinu en bara 35 frumvörp af 131 samþykkt

710 klukkustundir og 10 mínútur af þingfundum á árinu en bara 35 frumvörp af 131 samþykkt