Það er dálítið langsótt að halda því fram að Óskari Bergssyni hefði gengið betur í kosningum í Reykjavík en Einari Skúlasyni. Óskar er mjög umdeildur maður – í rauninni datt hann inn í borgarstjórnina eftir að nokkur fjöldi flokksmanna hafði hætt af ólíkum ástæðum, fyrst Anna Kristinsdóttir, svo Björn Ingi Hrafnsson.
Kjósendur eru kannski ekki heldur búnir að gleyma því að það var Björn Ingi sem leiddi Framsókn í Reykjavík framan af kjörtímabilinu.
Þingflokksformaður Framsóknar segir að Einar þurfi að íhuga stöðu sína – ég er svosem ekki viss um að þetta þurfi mikla íhugun hjá Einari, hann datt eiginlega út úr stjórnmálum á laugardaginn, hefur varla neina stöðu til að íhuga.
Annars eru allir flokkarnir verulega laskaðir eftir kosningarnar – það sýður smá upp úr í Framsókn, Sjálfstæðismenn láta eins og þetta hafi verið gott, í VG er mikill kurr og Steingrími kennt um, en í Samfylkingunni beinast spjótin að Degi B. – sem er að reyna að bjarga sér með því að semja við Besta flokkinn.