Enn er verið að reyna að ýja að vanhæfi rannsóknarnefndar Alþingis. Yfirleitt kemur það reyndar úr svipaðri átt.
Þess er þá að gæta að nefndin er ekki dómsvald, heldur er skipuð samkvæmt lögum frá Alþingi til að skoða ýmsa þætti hrunsins.
Það er erfitt að sjá að í því ljósi sé nefndarmaðurinn Sigríður Benediktsdóttir vanhæf þótt hún hafi sagt að ein ástæða hrunsins sé gáleysi stofnana sem komu við sögu og græðgi.
Svo er líka spurning hvernig yrði úrskurðað um hið meinta vanhæfi. Þá þyrfti líklega einhver sem tekinn er fyrir í skýrslunni að kæra nefndina til héraðsdóms og þaðan færi málið væntanlega til hæstaréttar. Í millitíðinni myndi skýrslan líklega hafa birst og vera á vitorði allra landsmanna.
Nú hefur hlutum skýrslunnar verið dreift til nokkurra einstaklinga sem þar koma við sögu. Þeir fá að gera athugasemdir – mér er ekki kunnugt um hvernig verður tekið tillit til athugasemdanna eða hvort þær verði birtar.
En lögmenn eru þegar farnir að tala um að athugasemdafresturinn þurfi að vera lengri en þeir tíu dagar sem ætlaðir eru.
Því á ekki að ansa. Skýrslan þarf að komast út í síðasta lagi um mánaðarmótin.