Leiðtogar Evrópusambandsins eru að fara að hittast á fundi sem átti að fjalla um evrópskan lífstíl á tíma lítils hagvaxtar.
Eins og staðan er núna er líklegt að þetta breytist í krísufund um vandræði landanna sem eru uppnefnd PIGS, Portúgals, Írands, Grikklands og Spánar.
Sérstaklega þó Grikklands. Þar eru mótmælendur þegar komnir út á göturnar til að lýsa óánægju sinni með niðurskurðaraðgerðir ríkisstjórnarinnar. Sósíalistastjórn Papandreous er þó ekki enn kennt um, enda er hún nýlega tekin við.
Grikkland og evran eru undir hörðum árásum spákaupmanna. Joseph Stiglitz segir að mæta þurfi spákaupmönnum með hörðu. Grikkland geti ekki staðið eitt.
Larry Eliot, efnahagsmálaritstjóri Guardian, skrifar að Evrópusambandið verði að viðurkenna veikleika evrusvæðisins – þeirri staðreynd að þjóðirnar eru misjafnlega staddar og að evran hentar þeim ekki öllum jafn vel – og koma Grikkjum til hjálpar. Rétttrúnaðurinn innan ESB heimili þetta ekki núna, en beiskur veruleiki kreppunnar hljóti að breyta því.