Lesandi síðunnar sendi þessar línur.
— — —
Það sem ber að hafa í huga í sambandi við þessi mál er að, þegar menn hafa með aðgengi að ótakmörkuðu ódýru lánsfé úr eigin banka, blásið upp stjarnfærðilegar skuldablöðrur í formi eignarhaldsfélaga, þá hafa menn ekki sjálfkrafa öðlast réttindi til þess að verja þær gegn falli gjaldmiðilsins á kostnað alls almennings.
Nú mun t.d. Exista skuldablaðran hafa náð ca. 1000 milljarða þrýstingi þegar verst lét. Að gengistryggja slíka blöðru kostar að menn þurfa að leggja bróðurpartinn af íslenska hagkerfinu undir. Og það er nákvæmlega það sem gerðist. Frá árinu 2006, þegar bankamönnum virðist hafa verið orðið ljóst í hvað stefndi, þá hafa eigendur bankanna í gegnum félög eins og t.d. Lýsingu, SP og AVANT skipulega leitað uppi aðila sem hægt var að lokka í stöðutöku með krónunni. 43.000 erlend bílalán urðu þannig til og þau tók fólk sem hafði ekki sömu upplýsingar um í hvað stefndi og eigendur bankanna höfðu. Erlend húsnæðislán og stöðutaka lífeyrissjóða með krónunni er svo af sama meiði.