fbpx
Laugardagur 24.maí 2025
Eyjan

Stórfellt óréttlæti

Egill Helgason
Sunnudaginn 31. janúar 2010 20:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórður Magnússon húseigandi var í viðtali í Silfri Egils í dag og ræddi úrræði sem skuldugum heimilum er boðið upp á. Hér er greinargerð Þórðar um málið:

— — —

Varðandi skuldastöðu heimilanna og þau úrræði sem
fjármálafyrirtæki og stjórnvöld hafa boðið upp á

Það sem hér er rætt snýr fyrst og fremst að verðtryggðum íslenskum lánum.  Erlendu
lánin eru annars eðlis m.a. vegna þess að vafi leikur á lögmæti þeirra og að sama
skapi eru þau lítið hlutfall af heildarverðmæti lánasafna bankanna.
Viðskiptaráðherra hefur t.d. sagt að bankarnir gætu lifað það af þó að þau yrðu
leiðrétt að fullu.  Greinin gerir ráð fyrir því að lesandi hafi kynnt sér að einhverju
leyti úrræði fjármálafyrirtækja sérstaklega Arionbanka.

Forsaga

Það er staðreynd að þegar nýju bankarnr yfirtóku þá gömlu var gert ráð fyrir
afskriftum.  Oft hefur verið nefnt 40% í því sambandi.  Spurningin var í raun alltaf
hvernig ætti að ráðstafa þessum afskriftum.  Tvennt skal hafa í huga í því sambandi.

Að þær;

a) kæmu í veg fyrir gjaldþrot sem flestra,

b) yrðu ekki til þess að lánasafn bankanna rýrnaði enn frekar.

Staðan sem menn horfðu á var tilkominn vegna misgengis verðbólgu og þ.m.
vertryggðra lána og lækkun á raunvirði launa og fallandi fasteignaverðs.
Fljótlega var nefnd sú leið að afskrifa 20% af öllum verðtryggðum lánum.  Sú fjárhæð
samsvaraði ca því tjón sem lántakendur höfðu á þessum tíma orðið fyrir og hefði þar
með sett fólk í þá stöðu sem það var í fyrir hrun gjaldmiðilsins.  Vegna þess að um
ákveðin forsendubrest lána var að ræða mátti með réttu tala um leiðréttingu höfuðstóls
í því sambandi.

Þeir sem mótmæltu þessari leið vildu meina að þarna væri verið að verðlauna þá sem
skuldsettu sig mest.  Þá var aftur á móti bent á að hægt væri að setja þak á leiðréttingu
þannig að þeir sem hefðu skuldsett sig óhóflega fengju þannig hlutfallslega minni
leiðréttingu.  Bæði voru nefndar ákveðnar fjárhæðir og það að til greina kæmi að gera
þetta með skattlagningu afskrifta.  Skattar er jú gjarnan notaðir til að jafna út
aðstöðumun.  Aðrar leiðir voru einnig nefndar svo sem: þak á verðtryggingu afturvirkt
og gerðardómstólsleið.

Árni Páll sagði á sínum tíma:

„Í grein minni í Fréttablaðinu nefndi ég að 20% niðurfelling verðlaunaði þá sem hafa
skuldsett sig mest, óháð því hvort þeir hafi efni á að greiða skuldir sínar eða ekki.
Það er staðreynd og það er ekki skynsamleg eða sanngjörn leið til lausnar.“

Úrræði stjórnvalda

Sú leið sem ríkisstjórnin valdi að fara fólst annarsvegar í;

a) Sértækri greiðsluaðlögun, sem er flókið ferli og felur í sér að lántakandi þarf í raun
og veru að ganga í gegn um gjaldþrot með þeim neikvæðu afleiðingum sem því fylgir.

Og hins vegar í;

b) greiðslujöfnun, sem felur í sér að afborganir taka ekki mið af raunverulegri stöðu
höfuðstóls heldur eru tengdar launa- og atvinnu-vísitölu.  Báðar þessar vísitölur eru í
sögulegu lágmarki.

Þar af leiðir að ef hagvöxtur verður eðlilegur og í samræmi við væntingar þá mun
atvinnustig og launavísitala hækka og þar með munu afborganir hækka og það
umfram verðlagsvísitölu.  Fljótlega munu afborganir ná sama hlutfalli af launatekjum
og þegar þær voru mestar. Þarna er því um tímabundna lækkun að ræða.  Bent hefur
verið á að með eðlilegum hagvexti mun bankinn a.m.k. ná öllu sínu til baka og ef
hagvöxtur verður umfram væntingar mun lánveitandi raunverulega græða á þessu
úrræði til langs tíma litið.

Annað sem er mjög athugavert er að biðreikningur sem lagður er til hliðar og safnar
vöxtum mun hanga yfir lántakendum uns yfir líkur.  Það leiðir af sér að ekki er hægt
að stunda eðlileg fasteignaviðskipti með eignina og að búið er að útiloka að
lántakendur geti með nokkru móti lækkað hjá sér greiðslubyrðina í framtíðinni.  Ef
t.d.  arfur losnaði eða viðkomandi fengi lottóvinning, myndi sú fjárhæð (nema að hún
væri þeim mun hærri) öll fara í að borga upp vexti af biðreikninginum.  Sem sagt,
fólk er fest í fátækragildru þar sem það getur hvorki selt húsið eða lækkað
greiðslubyrði.  Greiðslubyrðin getur einungis hækkað.

Óhagræðið fyrir lántakendur af þessum leiðum er sem sagt það mikið að ekki er hægt
að segja að stjórnvöld eða fjármálafyrirtæki hafi með þessum úrræðum viðurkennt
þann forsendubrest sem lántakendur urðu fyrir.

Það segir líka sitt hversu margir afþökkuðu þessa „aðstoð“.

Hér hefur verið reynt að fara yfir helstu atriði málsins.


Úrræði fjármálafyrirtækja

Það sem nú hefur gerst er var að einhverju leyti fyrirsjánalegt en að sama skapi
jafnvel hrikalegra en mann óraði fyrir.  Fjármálafyrirtæki hafa farið sínar eigin leiðir í
afskriftum (það það má þó segja að með því hafi þau viðurkennt að svigrúm var og er
til afskrifta).

Eins og menn spáðu fyrir um þá eru þær afskriftir eingöngu hugsaðar út frá
hagsmunum bankans og snýr þá fyrst og fremst að því að halda uppi bókfærðu
verðmæti lánasafnanna.  Bankarnir leggja sem sagt ekki samfélags- og siðferðisleg
sjónarmið til grundvallar afskriftum.  Sá tilgangur afskrifta að koma í veg fyrir
gjaldþrot sem flestra er ekki til staðar hjá bönkunm.  Það hefur jafnvel verið sýnt fram
á það að bankar gætu séð sér hag í því að setja fólk á hausinn sér í lagi þá sem eiga
eign sem rúmast inn í veðhæfi hússins. (sjá viðtal við Svein Óskar Sigurðsson
hagfræðing í Silfri Egils )

Það kom mér ekki á óvart að bankar skyldu miða við veðhæfi húss til að ákveða
afskriftir.  Það sem mig hins vegar óraði aldrei fyrir var það að bankar skyldu gera
það án þess að setja þak eða tengja það við tekjur eða eignastöðu viðkomandi.

Með því að afskrifa umfram 110% veð og án tekju og eignatengingar er beinlínis
verið að beina aðstoðinni fyrst og fremst til þeirra sem skuldsettu mest burt séð frá því
hvort að þeir þurfi yfirhöfuð nokkuð á hjálp að halda. Þetta er þar með ekki í samræmi
við fyrrnefnd orð félagsmálaráðherra.

Og það sem meira er, vegna þess að þetta tekur ekkert mið af tekjum eða eignastöðu
og þeir tekjuhærri voru á sínum tíma líklegri til að taka 100% lán eru það að jafnaði
þeir hinir tekjuhærri sem líklegri eru til að fá afskriftir.

Skuldsettar yfirtökur voru stundaðar af Íslendingum í útrás, en líka hér heima þegar
kom að fasteignaviðskiptum.  Hjá ákveðnum hóp fólks þótti það bera vott um lélegt
viðskiptavit að leggja til eiginfé. Þennan hóp á nú að verðlauna með afskriftum.

Sú leið sem nú hefur verið farin er líklega sú óskynsamlegasta og ósanngjarnasta sem
völ var á.  Þ.e. afskriftir fyrir „þá sem hafa skuldsett sig mest óháð því hvort þeir hafi
efni á að greiða skuldir sínar eða ekki“, svo ég noti orð félagsmálaráðherra.

Tökum dæmi:

Velstæður einstaklingur tekur 100% lán fyrir 150 milljón kr. húsi.

Húsið fellur í verði niður í 120 milljónir.  Lánið stendur í 202 milljónum.  Þessi
maður fær 70 milljónir afskrifaðar.

Auðvitað er þarna um að háar fjárhæðir og bankinn gæti áskilið sér að hafna þessu.
En kannski ekki, bankinn gæti horft til þess að þeir vildu síður missa af þessum
tiltekna viðskiptavin.  Allt þetta býður augljóslega upp á spillingu og hagsmunatengsl.

Ég hins vegar spurði millistjórnanda í Arionbanka hvers konar dæmi hún hefðu helst
séð koma inn á borð til hennar.

Hún svaraði því til að það væri oft í kringum 150 milljón króna lán, þar sem afskriftir
væru í kringum 30-40 milljónir.

Þessar upphæðir eru vel rúmlega það sem t.d. Hagsmunasamtök Heimilanna og aðrir
fóru fram á, á sínum tíma að yrðu leiðrétt.  Yfirleitt voru nefndar tölur frá 7 til 15
milljónum.

Í dag er veruleikinn sá að verið er að reka meðaltekjufólk og þar undir í þrot fyrir
upphæðir sem eru brot af þeim fjárhæðum sem á sama tíma er verið að afskrifa hjá
stórefnamönnum.

Hér er verið að festa í sessi óréttlæti af þeirri stærðargráðu að þau sár munu seint gróa
í samfélaginu.

Er hægt að sjá eitthvað réttlæti í því að hjón sem eru með 2 milljónir í mánaðarlaun og
eiga 16 milljón króna skuldlausan Porche jeppling og jafnvel einhver hlutabréf eða fé
í öruggum sjóðum en tóku á sínum tíma 100% lán fyrir fasteign, eru að fá allt upp í
30-40% afskriftir á láninu sínu?

Á sama tíma og meðaltekjufólk og þar undir sem safnaði fyrir húsinu sínu með sparifé
og óhóflegri vinnu sem situr uppi með það að fá enga leiðréttingu á stökkbreyttum
höfuðstól þrátt fyrir að hafa orðið fyrir hlutfallslega sama tjóni og þrátt fyrir það að sú
hækkun sem því er gert að þola skilur e.t.v. einmitt á milli feigs og ófeigs.  Það er
grátlegt að horfa upp á vel stæða einstaklinga fá afskriftir á sínum lánum á meðan
aðrir sjá fram á að fara í þrot, beinlínis vegna þess að þeir skuldsettu sig hóflega.

Í tilviki þess sem þetta ritar er það orðin staðreynd að ef við hjónin hefðum tekið
sparnaðinn okkar og lagt hann inn á hávaxtabók í stað þess að nota hann í að
fjármagna fasteignakaup, tekið 100% lán og þannig skuldsett okkur eins og
brjálæðingar ,værum við að fá fullar afskriftir sem myndu lækka greiðslubyrði niður í
það  sama og við erum að borga núna, nema hvað, þá ættum við sparnaðinn okkar
óskertann.

Þegar HH voru kynnt þau úrræði sem fjármálastofnanir ætluðu að bjóða upp á, bentu
þau á það augljósa óréttlæti sem þeim fylgdi.  Auk þess að sitja fund með bönkunum
áttu þau fund hjá félagsmálaráðuneyti.  Það er því ekki hægt að segja að afleiðingar
þessara úrræða hafi ekki verið mönnum  kunnar.

Hér á eftir kemur dæmi sem ég setti upp til að reyna sýna fram á fáránleikann sem
felst í því að nota veðsettningarhlutfall sem einhverskonar bautarstein til að ákvarða
afskriftir.  Þetta dæmi er yfirfarið af hagfræðingi og er fullkomlega raunhæft og
mögulegt.

DÆMI 1:

Hjón með 1.5 millj. í mánaðartekjur kaupa fyrir 4 árum hús á 45 milljónir á 100% láni.

(En nota launin til fjármagna óhóflega neyslu t.d tugmilljóna jeppa, heimsreisu, rolex úr
o.s.fr eða einfaldlega leggja þau til hliðar og safna eignum.

Nú stendur lánið þeirra í 56 milljónum (m.v. hækkun verðlags frá sept 2006 þ.e. tæp 35%)
en verð hússins hefur lækkað í 36 millj. (20% lækkun).

Arionbanki býður þeim að færa höfuðstól lánsins niður í 110% af veðhæfi hússins.  Við
það lækkar höfuðstóll lánsins niður í 39,6  milljónir eða um 29%.

Tapað eigið fé = ekkert  (þeim er bætt að fullu afleiðingar gengishrunsins og tapa því
engu, auk þess að þau áttu aldrei neitt í eigninni til að byrja með)

Afborganir lækka niður í c.a. 180.000 sem auðvelt er að greiða af verandi með 1.5 milljónir
í mánarlaun.

36 árum seinna eru þau skuldlausir eigendur hússins.

DÆMI 2:

Hjón með 600 þús í mánaðartekjur

Kaupa fyrir 4 árum hús á 45 milljónir en leggja í það 20 milljónir af eigin fé sem þau höfðu
sparað fyrir í fjölda ára.

Nú stendur lánið þeirra í 33,7 milljónum en verð hússins hefur lækkað í
36 millj. (20% lækkun).

Húsið er enn innan 110% veðhæfi.  Þeim stendur ekkert til boða og þurfa því að halda
áfram að borga 180.000

Tapað eigið fé ca 18 milljónir ef selt núna eða tekið upp í skuld.

Verandi með svona lág mánaðarlaun þá ræður fjölskyldan ekki við afborganirnar og endar
með að fara í þrot eftir að hafa ströglast við að borga af láninu í nokkur ár.

Niðurlag

Niðurstaðan er sú að þeir sem voru svo “forsjálir” að taka 80-100% lán eru núna að fá
leiðréttingu á sínum málum meðan aðrir sem áttu eitthvað í sínum eignum, tapa öllu.

Þarna er um að ræða úrræði sem eru klæðskerasaumuð fyrir þá sem skuldsettu sig
mest burt sér frá hvort þeir hafi efni á að greiða skuldir sínar eða ekki.  Þetta sýnir svo
ekki verður um villst að stjórnvöld hefðu átt að hafa frumkvæði að því að ákveða
afskriftir þannig að þær tækju tillit til siðferðis- og samfélagslegra sjónarmiða og
næðu því megin markiði sem sóst var eftir, þ.e. að koma í veg fyrir gjaldþrot sem
flestra.

Reykjavík, 20. janúar 2010.
Þórður Magnússon

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Brimlaus andstaða

Þorsteinn Pálsson skrifar: Brimlaus andstaða
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Við borðið eða á ganginum?

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Við borðið eða á ganginum?
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Borgarfulltrúi vill fjarlægja steypuklumpana í miðbænum – „Lýsandi fyrir stefnu sem þrengir að líflegu borgarumhverfi“ 

Borgarfulltrúi vill fjarlægja steypuklumpana í miðbænum – „Lýsandi fyrir stefnu sem þrengir að líflegu borgarumhverfi“ 
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Vindhögg í beinni hjá sægreifum og RÚV

Orðið á götunni: Vindhögg í beinni hjá sægreifum og RÚV
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Þyrnirósir vakna

Orðið á götunni: Þyrnirósir vakna
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bergþór Ólason þóttist vera túristi í leigubíl í gær og þá var svindlað á honum

Bergþór Ólason þóttist vera túristi í leigubíl í gær og þá var svindlað á honum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Steingerður Þorgilsdóttir skrifar: Auður Eir tengir sál við sál – 50 ára fermingarminning

Steingerður Þorgilsdóttir skrifar: Auður Eir tengir sál við sál – 50 ára fermingarminning
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Forsætisráðherra: „Ekki á dagskrá“ að fara að vilja meirihluta þjóðarinnar

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Forsætisráðherra: „Ekki á dagskrá“ að fara að vilja meirihluta þjóðarinnar