Sveitarstjórnarmaður utan af landi, nú látinn, sem ég ræddi stundum við sagði að það skipti engu máli hvaða flokkar væru í sveitarstjórnum – það ylti allt á einstaklngunum. Hann sagði þetta af langri reynslu. Benti á einn bæ sem blómstraði undir stjórn Sjálfstæðisflokksins og annan sem gerði það líka undir stjórn vinstri manna.
Ég hef lengi haldið því fram að flokkspólitískar áherslur í stjórnmálunum í Reykjavík séu borgarbúum ekki til heilla. Það er núorðið sáralítill meiningarmunur milli flokkanna í velferðarmálum, og hvað varðar skipulagsmálin þá gengur skoðanaágreiningurinn oft þvert á flokkana.
Ég hef áður sagt að mér sýnist margt ágætlega frambærlegt fólk vera í framboði í fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Margir frambjóðendurnir eru ungir og virka áhugasamir; þeir eru ekki endilega fjöldaframleiddir á flokkskontórum. Mér sýnist þetta vera betra en í flestum borgarstjórnarkosningum sem ég man eftir. Það var á köflum alveg hræðilegt mannval í borgarstjórn þegar ég byrjaði að fylgjast með pólitík.
Ég kem til dæmis auga á fjóra eða fimm frambjóðendur úr Sjálfstæðisflokknum sem ég gæti vel hugsað mér að kjósa.
Álíka marga úr Samfylkingunni.
Og að minnsta kost þrjá úr VG.
Ég veit heldur ekki betur en að oddviti framsóknarmanna hafi unnið ágætt starf þegar hann var í Alþjóðahúsinu.
Bara að þetta fólk gæti unnið saman.
Því það gegnir öðru máli að fara og kjósa þessa flokka.