Það er greinilegt að ríkisstjórnin veit ekki sitt rjúkandi ráð í Icesave málinu. Kannski er nokkuð til í því sem Þorsteinn Pálsson segir – að landið sé svo gott sem stjórnlaust?
Annars vegar standa yfir samningaviðræður milli stjórnar og stjórnarandstöðu um Icesave – væntanlega um einhverja sameiginlega leið út úr málinu.
Hins vegar hvetur fjármálaráðherra til þess að Icesave 2 verði samþykktur í þjóðaratkvæði – og gerir sig líklegan til að taka þann slag.
Hvort á það að vera?
Þorvaldur Gylfason spáir greiðslufalli hjá ríkissjóði út af Icesave. Að ef Icesave 2 verði fellt muni Norðurlöndin og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn draga sig í hlé – láta Ísland róa. Lána ekki peninga hingað eða þá miklu lægri fjárhæðir en rætt hefur verið um.
Kannski er þetta rétt mat hjá Þorvaldi.
En þá er þessi afstaða Norðurlöndunum og AGS til lítils sóma. Það eru íslenskir kjósendur sem líklega hafna þessum samningi; það er einfaldlega ekki hægt að troða honum ofan í kok þeirra.
Það er hinn pólitíski veruleiki, og þessi afstaða er hvorki óskiljanleg né ábyrgðarlaus, heldur ber einungis vott um tregðu til að taka á sig þungar byrðar vegna glæfrastarfsemi banka í einkaeigu – sem fæstir vissu nokkuð af fyrr en eftir hrun. Eða hversu mörg okkar þekktu áhættuna við Icesave, ef við höfðum þá yfirleitt heyrt það nefnt?
Útlendingar sem eru að tjá sig um málið tala margir um að hér sé í gangi uppreisn gegn bailouts, gegn því að skattgreiðendur séu látnir borga skuldir fjármálafyrirtækja sem þeir bera enga ábyrgð á. Kerfið sem nú er verið að endurræsa – en ekki endurbæta – gengur út á að þegnarnir samþykki þetta þegjandi og hljóðalaust.
En það er langt í frá sjálfsagt mál. Og þótt íslensk stjórnvöld hafi samþykkt eitthvað undir miklum þrýstingi á síðasta og þarsíðasta ári, þá er ekki þar með sagt að ekki megi breyta um kúrs.
Vegna þess að skilningur á málstað Íslendinga er meiri en áður, vegna þess að kreppan er á undanhaldi víðast annars staðar en hér, og vegna þess að þótt Íslendingum verði kennd einhver lexía í þessu máli virðist fjármálakerfi heimsins ætla að æða áfram eins og fyrr – og læra helst engar lexíur af reynslunni sem nærri dró það til dauða.