Maður getur ekki gert sér í hugarlund hvernig ástandið er á Haiti.
Guardian segir að Port au Prince sé eins og grafhýsi. Vonin um að finna fólk á lífi í rústunum dvínar með hverri klukkustundinni sem líður.
Það eru orð að sönnu að fáir staðir megi verr við svona atburðum en einmitt þessi. Þar er varla neitt heilbrigðiskerfi svo orð sé á gerandi, algjör lögleysa hefur ríkt í stórum hlutum landsins. Innviðir samfélagsins eru mjög veikir.
Fólk hefst við úti á götum. Út um allt eru rotnandi lík. Matur og vatn er af skornum skammti. Hætta er á farsóttum. Vanmátturinn getur snúist upp í andúð á björgunarsveitum. Einnig er hætta á að glæpaöfl gangi á lagið, fari að nærast á ástandinu með ránum og gripdeildum.
Björgunarsmenn eru ekki öfundsverðir að starfa í svona ástandi og það hlýtur að reyna mjög á andlegan styrk þeirra. Líklega er þetta reynsla sem mun marka þá fyrir lífstíð.