Dorrit hvarf í Mumbai og var leitað. Hún hefur sjálfsagt brotið gegn prótokoll í opinberri heimsókn. Mér skilst að Indverjar séu ansi stífir á slíku.
En þetta rifjaði upp sögu sem mér var sögð um árið þegar Bob Dylan kom hingað. Þetta var 1990.
Þá átti ég langt og skemmtilegt samtal við gítarleikarann í hljómsveitinni hans, G.E. Smith, sem sjálfur er býsna frægur tónlistarmaður.
Hann sagði að Dylan ætti það til að hverfa á tónleikaferðalögum. Hann vildi heldur ekki búa á mjög fínum hótelum, þar fyndist honum vera þrengt að sér.
Stuttu áður en hann spilaði hérna hafði Dylan haldið tónleika í Ísrael. Eftir þá hvarf hann. Það var farið að leita.
Nokkrum dögum síðar kom hann í leitirnar. Hafði þá farið til Kaíró. Keypt sér kufl með hettu að hætti þarlendra – og gengið um göturnar án þess að neinn bæri kennsl á hann.